Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir að smitrakningateymið sé töluvert eftir á í að láta fólk vita um að það eigi að vera í sóttkví. Það taki allt að tvo sólarhringa að láta þá sem þurfa að fara í sóttkví vita svo hann biðlar til fólks sem greinist smitað af kórónuveirunni að láta þá sem það hefur verið í samskiptum við sólarhringana tvo áður en einkenni komu fram vita af smiti.
„Það er mikið álag á smitrakningnni hjá okkur og við erum töluvert á eftir í að ná til allra þeirra sem ættu að vera í sóttkví og við viljum því hvetja alla þá sem fá niðurstöðu um að þeir séu með COVID-19 til að láta þá sem þeir hafa verið í samskiptum við tveimur sólarhringm á undan einkennum vita af þessu svo viðkomandi fari í sóttkví,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
„Við munum hafa samband en það tekur tíma og það hefur tekið alveg upp undir tvo daga að ná til þessara hópa þannig að fólk getur tekið þátt í þessu með okkur með þessum hætti.“
Víðir sagði þá að allir sem finna fyrir einkennum ætti að líta á það sem svo að þeir séu í einangrun á meðan þeir bíða eftir sýnatöku.
„Veiran er andstæðingurinn. Við erum öll orðin hundþreytt á henni,“ sagði Víðir og hvatti fólk til að standa saman og fylgja reglum og tilmælum sem miða að því að lágmarka útbreiðslu smita.