Smátt og smátt virðist vera að þorna í skriðusári í Hleiðargarðsfjalli í Eyjafirði að sögn veðurfræðings á Veðurstofunni. Stór aurskriða féll í fjallinu í gær og hafnaði 100 metrum frá Gilsá II, bæ sem er staðsettur í hlíðinni.
Samfara skriðunni var mikið vatnsrennsli úr sárinu ásamt því sem rigning var nokkur, þannig að aur og grjót gengu niður á veginn. Bærinn stendur við Eyjafjarðarbraut vestri.
Talin var hætta á að fleiri skriður gætu orðið í ljósi vatnsrennslisins og því setti lögregla upp myndavél við staðinn til að vakta þróunina.
„Það þarf augljóslega að fylgjast með þessu næstu daga,“ segir veðurfræðingur í samtali við mbl.is. Komi til annarrar skriðu sé hætta á eignatjóni. Veðurstofan sendir menn á svæðið í dag en talið er að virknin sé að verða minni og hættan á frekari skriðum þá sömuleiðis.
Að sögn bónda sem mbl.is ræddi við í gær fylgdi svakalegur hávaði hamförunum. Önnur eins skriða hefur ekki orðið á þessu svæði í fjórtán ár að hans mati, en þá skemmdust nokkur hús í mikilli skriðu við Grænuhlíð í Eyjafirði.