Útlitið er gott hjá Landsvirkjun

Hálslón fylltist í ágúst og þá myndaðist þar fossinn Hverfandi
Hálslón fylltist í ágúst og þá myndaðist þar fossinn Hverfandi

Nýtt vatnsár hófst hjá Landsvirkjun 1. október sl. Öll miðlunarlón á hálendinu eru sem næst full og fyrirtækið því í góðri stöðu til að tryggja orkuafhendingu til viðskiptavina sinna á komandi vatnsári, segir í frétt á heimasíðu Landsvirkjunar.

Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert, en um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga. Þegar haustrigningum lýkur og vetur gengur í garð er byrjað að nýta miðlunarforðann. Vatn frá miðlunum stendur undir um helmingi af orkuvinnslu Landsvirkjunar yfir veturinn og fram á vor.

Í heildina var innrennsli á nýliðnu vatnsári nokkuð undir meðallagi. Haustið 2019 var kalt og þurrt. Niðurdráttur miðlunarlóna hófst um miðjan október og hélst nokkuð eindreginn fram á vor. Innrennsli vetrarins var vel undir meðallagi, og voru nóvember og mars slökustu mánuðirnir. Í lok vetrar var talsverður snjór á hálendinu og skilaði hann sér vel í vorflóðunum. Söfnun í miðlunarlón var með ágætum fram í lok júní en hægðist á í júlí, þegar innrennsli var vel undir meðallagi. Tíðin batnaði í ágúst og öll miðlunarlón Landsvirkjunar fylltust. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert