Verður stytta Jónasar flutt vestur á Mela?

Stytta Jónasar er nú í trjálundi í Hljómskálagarðinum. Skáldið er …
Stytta Jónasar er nú í trjálundi í Hljómskálagarðinum. Skáldið er í frakka að sinnar tíðar sið, stingur hægri hendi inn undir frakkann og heldur á blómi í vinstri hendinni. mbl.is/sisi

Verður styttan af Jónasi Hallgrímssyni flutt úr Hljómskálagarðinum vestur á Mela, í námunda við Hús íslenskunnar og Þjóðarbókhlöðuna? Þetta lagði Sigurður E. Þorvaldsson læknir til í grein í Morgunblaðinu 3. september sl.

Morgunblaðið ákvað að kanna hvort þessi hugmynd Sigurðar yrði mögulega að veruleika. Í ljós kom að engar ákvarðanir hafa verið teknar, hvað sem síðar kann að verða, enda nægur tími til stefnu. Sigurður læknir leggur til í grein sinni að styttan verði færð á Degi íslenskunnar, afmælisdegi Jónasar. Það verður alla vega ekki á næsta afmælisdegi listaskáldsins, en Jónas fæddist 16. nóvember 1807.

Styttan af Jónasi Hallgrímssyni er á skrá yfir þau útilistaverk sem eru í eigu og umsjá Reykjavíkurborgar, upplýsir Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. Styttan var reist fyrir forgöngu Stúdentafélags Reykjavíkur. Höfundur er Einar Jónsson og er verkið ársett 1905 en var sett upp við Lækjargötu 1907 en síðar fundinn staður í Hljómskálagarði eða árið 1947. Hús íslenskunnar við Arngrímsgötu stendur á lóð Háskóla Íslands og hafa ekki átt sér stað viðræður um flutning styttunnar að húsinu, segir Ólöf.

Reykjavíkurborg á styttuna og Háskólinn lóðina svo flutningur hennar er á borði stjórnenda þeirra, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert