Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu (FHG) vilja að fasteignagjöld á öllu húsnæði undir ferðaþjónustu fyrir árið 2020 og/eða 2021 verði felld niður eða þeim að minnsta kosti frestað.
Hagsmunasamtökin sendu Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) erindi þessa efnis í gær.
Í beiðninni var minnt á að meðal aðgerða stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hefði verið heimild til þess að gjaldendur fasteignaskatts í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls, frestuðu allt að þremur greiðslum fasteignaskatts á gjalddaga 1. apríl 2020 – 1. janúar 2021. Nú væri ljóst að sá vandi væri mun langvinnari og mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu berðust fyrir lífi sínu.
Nefndir eru fleiri kostir en niðurfelling, þyki sveitarfélögum hún of kostnaðarsöm. Til dæmis frestun greiðslu fasteignagjalda, sem stofnað er til á árunum 2020 til 2022, til allt að tíu ára, eða með lengingu í lögveði fasteignaskatta vegna ákveðinna ára.