Alls greindust 97 ný kórónuveirusmit innanlands í gær, þar af voru 54 í sóttkví og 43 utan sóttkvíar. 24 eru nú á spítala vegna COVID-19, þar af 3 á gjörgæslu.
Langflest smitanna greindust á höfuðborgarsvæðinu.
82 smitanna greindust í einkennasýnatökum, 14 í sóttkvíar- og handahófsskimun og 1 í skimunum vegum Íslenskrar erfðagreiningar. 3.362 sýni voru tekin.
915 eru í einangrun með virkt smit og 3.920 í sóttkví. Í skimunarsóttkví eru 1.447 manns, þangað fara þeir sem koma til landsins.
8 smit greindust við landamærin og er mótefnamælingar beðið í öllum tilvikum nema einu. Í því tilviki er um virkt smit að ræða.
Nýgengi innanlandssmita, fjöldi nýrra smita síðustu tvær vikur á hverja 100.000 íbúa, er 213,3 og hækkar töluvert á milli daga. Nýgengið mældist 198,8 þegar tölur voru kynntar í gær.