Upp- og umframgreiðslur sjóðfélagalána hjá lífeyrissjóðunum voru svo miklar frá júní og fram til loka ágústmánaðar að þær reyndust ríflega 10 milljörðum meiri en þau nýju lán sem sjóðfélagar tóku hjá sjóðunum yfir sama tímabil.
Aldrei fyrr hafa upp- og umframgreiðslur af þessu tagi sést í bókum sjóðanna. Magnús Árni Skúlason hjá Reykjavik Economics segir að nokkrar ástæður liggi að baki þessari þróun.
Fyrst nefnir hann þá staðreynd að sjóðirnir hafi ekki fylgt viðskiptabönkunum í skörpum vaxtalækkunum síðustu mánuði. Þá hafi það einnig áhrif að u.þ.b. 30% kaupenda á fasteignamarkaðnum nú séu einstaklingar sem séu að kaupa sína fyrstu eign. Þeir séu gjarnan með lítið eigið fé og að eiginfjárkröfur lífeyrissjóðanna séu í flestum tilvikum mun stífari en bankanna.