Enn er talin hætta þar sem skriða féll í Hleiðargarðsfjalli ofan við Gilsá 2 í Eyjafirði á þriðjudag. Lögreglan á Norðurlandi eystra og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun hafa metið aðstæður á staðnum og er svæðið vaktað.
Nokkur vatnselgur hefur komið úr skriðusárinu frá því hún féll og hefur aur og grjót náð yfir Eyjafjarðarbraut, að því er segir í tilkynningu.
„Eyjafjarðarbraut vestari verður áfram lokuð umferð frá Sandhólum annars vegar og frá brúnni yfir Eyjafjarðará við Vatnsenda hins vegar. Þá er rýming á bæjunum Gilsá 1, Gilsá 2 og sumarbústað við Gilsá 2 áfram í gildi.
Ekki er útilokað að fleiri skriður geti fallið á svæðinu,“ segir í tilkynningu.