„Það er búið að vera mjög mikið álag, töluvert meira en í vor,“ segir Jón Kristinn Valsson, sjúkraflutningamaður hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Jón Kristinn fæst meðal annars við Covid-19-flutninga. Þeim fjölgar stöðugt og var met sett í sjúkraflutningum í nótt.
„Þetta er mikið til fólk sem er í einangrun og þarf að fara í læknisskoðun á Covid-deildinni í Birkiborg og fólk sem þarf að flytja frá Birkiborg og í CT-myndatöku, lungnamyndatöku, á Landspítala áður en það er metið hvort það leggist inn,“ segir Jón Kristinn spurður um það hvað sé átt við þegar rætt er um Covid-flutninga.
Eru þetta svipaðir flutningar og hefðbundnir sjúkraflutningar?
„Það sem er auðvitað öðruvísi er að þurfa að klæða sig upp í allan hlífðarbúnað, galla, grímu, maska, gleraugu og svo þrifin á eftir. Þau eru töluvert meiri, það þarf að sótthreinsa á milli. Og svo er það að vera í þessum galla sem andar ekki eða neitt og þú verður mjög fljótt sveittur og þreyttur,“ segir Jón Kristinn.
Annið þið alveg eftirspurn eða þyrfti teymið að vera betur mannað?
„Við önnum þessu alveg eins og staðan er núna. Það gæti náttúrlega myndast bið á háflutningunum en þetta eru sjaldnast bráðaflutningar. Mikið af þessu er fólk í sóttvarnahúsinu sem er að fara í læknisskoðun og annað. Þá kannski skiptir ekki máli hvort það bíður í tíu mínútur eða korter í viðbót,“ segir Jón Kristinn.