Friðarsúlan í Viðey, listaverk Yoko Ono, var tendruð í fjórtánda sinn í kvöld á fæðingardegi tónlistarmannsins Johns Lennons.
Vegna heimsfaraldurs Covid-19 var enginn viðburður í Viðey í tengslum við tendrunina. Streymt var beint frá tendruninni þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti stutt ávarp og að því loknu var kveikt á Friðarsúlunni. Áhorfendur voru hvattir til að hugsa um frið.
Harpan var einnig lýst upp á sama tíma með friðartákni.
Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember næstkomandi, dánardags Lennons, en hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í New York árið 1980. Hann hefði orðið áttræður í dag.