Hafnarfjarðarvegi verður tímabundið lokað til suðurs laugardaginn 10. október. Þetta kemur fram í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Ástæða lokunarinnar er framkvæmdir á svæðinu, en á milli kl. 08:00 og 18:00 á laugardag verður unnið við vegamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar í Garðabæ. Því verður Hafnarfjarðarvegi lokað til suðurs en umferð beint um hjáleið fram hjá vinnusvæðinu eftir Vífilsstaðavegi og Hraunsholtsbraut inn í Engidal.
Ekki verður hægt að komast af Hafnarfjarðarvegi inn á Vífilsstaðaveg til austurs. Þeim ökumönnum er bent á hjáleið um Goðatún og Litlatún og inn á Vífilsstaðaveg.
Þrátt fyrir framkvæmdir verður umferð um Vífilsstaðaveg og Hafnarfjarðarveg til norðurs óhindruð en búast má við einhverjum umferðartöfum.