Rekstraraðilar sem hafa þurft að gera hlé á starfsemi sinni vegna sóttvarnaaðgerða nú í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins munu geta sótt um lokunarstyrki sem nema 600 þúsund krónum á hvern starfsmann miðað við lokun í mánuð. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Ríkisstjórnin fundaði um útfærslu styrkjanna nú í morgun.
Frá og með síðasta miðvikudegi hefur hárgreiðslustofum, nuddstofum, börum, skemmtistöðum, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu verið gert að loka til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á höfuðborgarsvæðinu. Lokunin gildir að óbreyttu til 19. október.
Lokunarstyrkir voru einnig veittir í fyrstu bylgju faraldursins þegar fyrirtækjum í samskonar rekstri var gert að loka. Í þeirri útfærslu gat hvert fyrirtæki hins vegar að hámarki fengið 2,4 milljónir króna í styrki. Þannig fengu stærri fyrirtæki, sem mörg hver hafa tugi starfsmanna á launaskrá, aðeins lítinn hluta tjónsins vegna lokunar bætt.
Samkvæmt þeim aðgerðum, sem ríkisstjórnin vinnur nú að, verður hámarkið hins vegar miðað við 120 milljónir króna á fyrirtæki. Þannig myndi fyrirtæki með tíu starfsmenn, sem gert er að loka í tvær vikur, fá þrjár milljónir króna.
„Þetta eru verulegar breytingar. Við höfum verið að horfa til þeirra reglna sem eru í gildi innan Evrópu og miða við að þakið sé tiltölulega hátt,“ segir Katrín. Það sé raunar svo hátt að fá ef nokkur fyrirtæki ættu að ná upp í það.
Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að úrræðið muni kosta um 300-400 milljónir króna, að því gefnu að lokunin vari aðeins í tvær vikur.
Veitingastöðum er ekki gert að hætta starfsemi, en ljóst er þó að í þeim geira er róðurinn þungur. Staðirnir hafa enda orðið fyrir barðinu á sóttvarnareglum og mega aðeins vera opnir til klukkan 21. Aðspurð segir Katrín að úrræðið taki þó ekki til veitingahúsa heldur aðeins til fyrirtækja sem þurfa samkvæmt reglugerð að loka. „Við erum að gera fullt af fólki það að þurfa að loka sínu fyrirtæki með tilheyrandi tjóni, og þá er eðlileg krafa að við því sé brugðist,“ segir Katrín.
Hún bendir þó á að áður boðaðir styrkir til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli standi veitingastöðum til boða sem og öðrum.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var á dögunum, er lagt til að áfengisgjald verði hækkað um 2,5% á næsta ári, en það er undir ársverðbólgu. Innan veitingageirans gætir þó nokkurrar óánægju með þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar, sem sé síst það sem fyrirtækin þurfi á að halda.
Spurð hvort til greina komi að hverfa frá þeim hækkunum, segir Katrín svo ekki vera. „Nei, það kemur ekki til greina að endurskoða þetta. Þessi uppfærsla er bara til að tryggja að þessi gjöld séu í einhverju samhengi milli ára,“ segir hún og bendir réttilega á að með hækkuninni sé verðlagsþróun ekki einu sinni fylgt. „Þetta er ekki lagt fram að óígrunduðu máli heldur snýst um festu og fyrirsjáanleika í ríkisfjármálunum.“