Forstjóri Landspítala segir ljóst að spítalinn sé að gera allt það sem árangursríkast sé talið í baráttunni við Covid-19. Hann segir vísindin lykilatriði í baráttunni og biðlar til fólks að sýna því skilning að starfsemi Landspítala tekur breytingum þessa dagana, stundum mjög hratt, til að mæta þörfum Covid-19-sjúklinga.
„Þriðja bylgja faraldursins er í algleymingi. Góð vísa er ekki of oft kveðin – ég biðla til fólks að sýna því skilning að við erum að breyta starfsemi, stundum mjög hratt, til að mæta þörfum sjúklinga með Covid-19-veikindi,“ skrifar Páll Matthíasson forstjóri Landspítala í pistli á vef spítalans.
Þar hvetur hann fagfólk í heilbrigðisgreinum sem starfar í öðrum greinum til að skrá sig á bakvarðalista heilbrigðisþjónustunnar ef það hefur tök á. Páll segir að það muni um hvern einstakling sem skrái sig, sérstaklega í tilfelli hjúkrunarfræðinga.
Páll vekur athygli á grein sem birtist í læknatímaritinu Lancet í gær. Hún er eftir Juliet Bedford og félaga í ráðgjafarhópi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
„Ég hvet ykkur til að lesa greinina en þar er rakinn sá lærdómur sem þegar liggur fyrir um það hvernig helst má lifa með farsóttinni og halda henni í skefjum. Það er ljóst á greininni að við erum að gera alla þá hluti sem árangursríkastir eru taldir. Það er líka skýrt að samhæft átak, sóttvarnir og stuðningur almennings eru ákveðinn hornsteinn í því langhlaupi sem heimsbyggðin er nú stödd í,“ skrifar Páll.
Árleg uppskeruhátíð vísinda á spítalanum var haldin í vikunni. Í ávarpi sínu á hátíðinni, sem fór fram rafrænt, gerði Páll orð Jónasar Hallgrímssonar, „Vísindin efla alla dáð“, að umræðuefni.
„Þau orð eiga við í mörgum skilningi á Landspítala, bæði vegna þess hvata sem vísindastörf eru öflugu starfi og starfsánægju en ekki síður vegna þess að sköpun og beiting þekkingar í gegnum kennslu og vísindi er hornsteinn heilbrigðisþjónustu. Þetta sést ekki síst í baráttu okkar gegn SARS-Cov-2-veirunni.
Lykillinn að því að við getum barist gegn henni er vísindi – að við öflum okkur þekkingar á eðli veirunnar og veikindanna sem veiran veldur og að við þróum greiningarpróf, meðferðir og síðan bóluefni sem duga gegn henni. Þar liggur bókstaflega lífið við. Vísindi og vísindamenning eru lykilatriði, hornsteinar, í viðbrögðum Landspítala við veiruógninni. Vísindamenn spítalans hafa, í samstarfi við vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar, Háskóla Íslands og fleiri birt fjölmargar vísindagreinar síðustu mánuði um ýmsa þætti sem snúa að veirunni og er það þó aðeins fyrirboði þess sem koma mun,“ skrifar Páll.