Staðan er sögð góð á öllu landinu með tilliti til kórónuveirunnar samkvæmt stöðuskýrslu ríkislögreglustjóra. Í gær greindust 9 smit utan höfuðborgarsvæðisins af þeim 97 sem greindust á landsvísu en smit greindust í öllum landshlutum nema á Austurlandi.
Sögulega margir sjúkraflutningar voru í gær eða 150 alls, þar af um þriðjungur sem tengdist Covid-19 og er unnið að því að taka fleiri sjúkrabíla í notkun til þess að nota við Covid-flutninga að því er fram kemur í stöðuskýrslunni.
Þá segir einnig að unnið sé að því að ekki myndist raðir við sýnatöku á Suðurlandsbraut en fram kom í fréttum í gær að þar hafi röð náð alla leið upp í Ármúla.
Í gær gekk vel að skima um 600 manns eftir að smit kom upp í Sunnulækjarskóla á Selfossi í síðustu viku. Enginn þeirra nemenda eða starfsmanna Sunnulækjaskóla sem fóru í skimun í gær var smitaður af kórónuveirunni en skimunin fór fram í skólanum sjálfum.
Enn fremur segir í stöðuskýrslunni að verið sé að auka mannskap við smitrakningu og að unnið sé að stækkun farsóttarhúss enda sé álagið þar orðið mikið. Í farsóttarhúsinu eru 56 í einangrun og eru 32 í sóttkví. Staðan þar er sögð þung.
Einnig er álag á vaktsíma Læknavaktarinnar í númerinu 1700.
Staðan er sögð góð í öllum landshlutum eins og fyrr segir. Þá gekk eftirlit lögreglu með verslunum og veitingahúsum vel á Suðurnesjum og var aðstaða til sóttvarna til fyrirmyndar hjá öllum sem heimsóttir voru.
Enginn er í einangrun á Austurlandi og er verið að ítreka við íbúa höfuðborgarsvæðis að ferðast ekki að óþörfu á Austurland, meðal annars vegna þjónustu við fyrirtæki þar sem mögulega getur beðið.
Þá segir í stöðuskýrslunni að engar upplýsingar hafi verið að fá frá Vestmannaeyjum og Vesturlandi.