„Já, við erum að hætta búskap. Mjólkurbíllinn kom í síðasta skipti í gær,“ segir Drífa Hjartardóttir, bóndi á Keldum á Rangárvöllum og fyrrverandi alþingismaður og sveitarstjóri.
Hún og maður hennar, Skúli Lýðsson, hafa búið í 50 ár á jörðinni. Með því að þau hætta lýkur rúmlega 1000 ára búskaparsögu á býlinu.
„Það er með trega að við hættum en allt hefur sinn tíma. Skúli er orðinn heilsulítill og við segjum þetta gott,“ segir Drífa. Þau hafa verið að draga úr framleiðslu allt árið og nú fer kvótinn til sölu á kvótamarkaði. Þau eru jafnframt að hætta með fé. Þó verða eftir nokkrir nautgripir í uppeldi sem ekki eru orðnir nógu stórir til að fara í sláturhúsið.
Þau ætla að búa áfram á jörðinni. „Við höldum áfram í skógræktinni. Við erum búin að planta yfir tveimur milljónum plantna á skógræktarsvæði í Sandgili, norðan við bæinn, en þar var áður svartur sandur. Við lítum á það starf sem landgræðslu, ekki ræktun nytjaskóga. Við höfum líka verið í ýmsum verkefnum með Landgræðslunni um að græða upp land jarðarinnar,“ segir Drífa en fyrr á öldum fóru Keldur oft illa út úr öskufalli í Heklugosum. Bændur þar hafa því alltaf átt í mikilli baráttu við sandinn.