26 kylfingar frá Reykjavík spiluðu golf á Akranesi í gær, að því er fram kemur í frétt Vísis. Golfvellir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið lokaðir frá og með föstudegi og verða lokaðir til 19. október vegna sóttvarnaráðstafana.
Kylfingar hafa jafnframt verið beðnir af GSÍ að leita ekki út fyrir höfuðborgarsvæðið til að komast í golf. Þá hafa sóttvarnayfirvöld mælst til þess að höfuðborgarbúar haldi sig heima vegna aukins smitfjölda.
Eins og mbl.is hefur áður greint frá leitaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, út fyrir höfuðborgina til að svala golfþorstanum um helgina. Þorgerður er því ekki sú eina sem gerði slíkt, þrátt fyrir tilmæli um annað.