Hörður Bergmann, kennari og rithöfundur, lést á Landspítalanum að morgni 10. október 2020. Hörður fæddist í Keflavík og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá ML árið 1954, BA-prófi í dönsku, sögu og uppeldisfræði frá HÍ 1956, stundaði nám í kennslufræði, uppeldissálarfræði og dönsku við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1971-72 og sótti auk þess ýmis námskeið í dönsku, málakennslu og kennslu- og uppeldisfræðum hér á landi, í Danmörku, Svíþjóð og Englandi.
Hörður var kennari við Gagnfræðaskólann við Hringbraut 1956-58 og við Hagaskóla 1958-74, var námstjóri í dönsku við skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytis 1972-82 og endurskoðandi námskrár fyrir grunnskóla við sama ráðuneyti 1982-84 og annaðist endurmenntunarnámskeið fyrir dönskukennara á vegum KHÍ 1973-79, var deildarstjóri fræðsludeildar Vinnueftirlits ríkisins 1984-93 og framkvæmdastjóri Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, 1993-2001.
Hörður sat í Stúdentaráði HÍ 1955-56, var formaður Félags róttækra stúdenta 1956-57, sat í stjórn Æskulýðsfylkingarinnar 1958-60 og Félags háskólamenntaðra kennara 1968-71, var í fræðsluráði Reykjavíkur 1978-82 og fulltrúi Íslands í nefnd sem stjórnaði norrænu grannmálaáætluninni 1976-77. Hörður var fyrsti formaður Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, 1983-89 og sat í stjórn Fjölís, samtaka rétthafa, frá 1986-2002.
Hörður hefur ritað margt um mennta- og þjóðmál og birt það í blöðum og tímaritum. Þrjár bækur um þróun þjóðfélags og lífshátta liggja eftir hann: Umbúðaþjóðfélagið – uppgjör og afhjúpun, nýr framfaraskilningur, 1989, Þjóðráð. Haldbær þróun samfélags og lífshátta, 1999, og Að vera eða sýnast. Gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins, 2007. Hann hefur samið, ýmist einn eða í samstarfi við aðra, fjölda kennslubóka í dönsku og íslensku auk kennsluleiðbeininga. Þá er hann höfundur bóka og fræðsluefnis um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Hann þýddi ritið Inngangur að félagsfræði eftir Peter Berger, ásamt Lofti Guttormssyni, 1968. Það var lengi vel notað við kennslu í framhaldsskólum.
Eiginkona Harðar var Dórothea Sveina Einarsdóttir, f. 21.2. 1932, d. 16.8. 2011, leiðbeinandi. Börn Harðar og Dórotheu eru Halldóra Björk, f. 21.3. 1953, sálfræðingur; Atli, f. 31.12. 1958, sölufulltrúi; Jóhanna, f. 26.6. 1963, safnkennari, og Helga Lilja, f. 7.11. 1967, skjalafulltrúi. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin ellefu.
Bræður Harðar: Árni, f. 22.8. 1935, fyrrv. ritstjóri og rithöfundur; Stefán f. 2.7. 1942, líffræðingur, og Jóhann, f. 16.10. 1946, verkfræðingur.
Foreldrar: Halldóra Árnadóttir, f. 13.10. 1914 í Keflavík, d. 13.3. 2006, húsmóðir og Jóhann Bergmann, f. í Keflavík 18.11. 1906, d. 4.2. 1996, bifvélavirki.