Blaðamenn verða ekki lengur á staðnum

Það verður breytt snið á upplýsingafundi almannavarna í fyrramálið.
Það verður breytt snið á upplýsingafundi almannavarna í fyrramálið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamenn munu frá og með morg­un­deg­in­um vera viðstadd­ir upp­lýs­inga­fundi al­manna­varna í gegn­um fjar­funda­búnað. Með þess­ari ákvörðun vill al­manna­varnateymið ganga á und­an með góðu for­dæmi, að vera ekki að kalla sam­an hópa nú þegar þriðja bylgja rís hvað hæst. 

Hingað til hafa að jafnaði þrír til fjór­ir blaðamenn frá helstu miðlum mætt á upp­lýs­inga­fund­ina í sal­arkynn­um Land­læknisembætt­is­ins á Höfðatorgi og áður mættu þeir í al­manna­varnagám­inn í Skóg­ar­hlíð.

Sú tíð er liðin í bili, seg­ir Jó­hann K. Jó­hanns­son, upp­lýs­inga­full­trúi al­manna­varna. „Þetta send­ir skýr skila­boð um það sem við erum að segja og við erum nú að fara sjálf eft­ir okk­ar eig­in til­mæl­um. Við vilj­um ekki vera að stefna fólki sam­an,“ seg­ir hann.

Vont ef smit bær­ist inn í hóp­inn

Fund­irn­ir eru yf­ir­leitt rúm­ur hálf­tími og þar koma sex til tíu ein­stak­ling­ar sam­an frá mis­mun­andi stöðum. Þetta get­ur verið lang­ur tími þar sem fólk er sam­an og af þess­um sök­um seg­ir Jó­hann að al­manna­varn­ir hafi farið að líta til þess að gera þetta um­hverfi ör­ugg­ara.

„Það væri enda rosa­lega vont ef smit bær­ist inn í þenn­an hóp,“ seg­ir Jó­hann. Auk blaðamanna hafa tækni­menn og túlk­ar verið viðstadd­ir fund­ina og einnig á að verða breyt­ing þar á núna. Mynda­vél­un­um verður stýrt úr öðru her­bergi ásamt því sem túlk­ur mun einnig standa ann­ars staðar.

Síðasti fundurinn í gámnum 25. maí.
Síðasti fund­ur­inn í gámn­um 25. maí. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Al­manna­varn­ir og land­lækn­ir hafa aðset­ur ofar í bygg­ing­unni þar sem fund­ir fara fram. „Við get­um ekki tekið á móti fólki hingað núna vegna þeirr­ar starf­semi sem er hér en við vilj­um að sjálf­sögðu áfram koma upp­lýs­ing­um út. Það er mik­il­vægt að fjöl­miðlar fái tæki­færi til að spyrja spurn­inga og þetta er vett­vang­ur sem við telj­um okk­ur geta nýtt til að halda upp­lýs­inga­gjöf­inni áfram,“ seg­ir Jó­hann.

Blaðamenn á stór­um skjá

Blaðamenn verða í mynd og hljóði á stór­um skjá fyr­ir fram­an þríeykið og Víðir stýr­ir fund­in­um, að vanda. Spurn­ing er hvort mynd verði sett á skjá­inn af blaðamönn­um, sem hingað til hef­ur ekki verið. Jó­hann seg­ir það til skoðunar.

Að lok­um mark­ar þetta allt sam­an nokk­ur tíma­mót, því að fund­ur­inn í fyrra­málið verður sá fyrsti þar sem Björn Ingi Hrafns­son, rit­stjóri Vilj­ans, verður ekki í her­berg­inu. En hann er þegar bú­inn að hlaða niður nauðsyn­leg­um for­rit­um og verður mætt­ur á slag­inu 11.03.




mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert