Endurheimta 24 hektara í Önundarfirði

Frá Önundarfirði.
Frá Önundarfirði. Ljósmynd/MATS

Endurheimt votlendis í landi Kirkjubóls í Korpudal við Önundarfjörð lýkur í fyrramálið. Alls hafa 24 hektarar lands þá verið endurheimtir og með framkvæmdinni stöðvuð árleg losun upp á 480 tonn af koltvísýringi. Er það sambærileg losun og frá um 240 fólksbílum á ári.

Í tilkynningu frá Votlendissjóði segir að jörðin á Kirkjubóli hafi verið framræst af ríkinu í óþökk landeigenda fyrir 50 árum. Ríkið hafi þannig borgað fyrir framræsingu lands sem aldrei var nýtt.

Fyrr í haust stóð Votlendissjóður að endurheimt lands á jörðinni Gottorp við Hópið í Húnaþingi vestra. Svæðið sem var endurheimt er um 33 hektarar að stærð og má áætla að það hafi losað um 660 tonn af koltvísýringi á ári.

Í báðum tilfellum var endurheimtin unnin að beiðni landeigenda, í samstarfi Votlendissjóðs og Landgræðslunnar. 

Hvað er endurheimt votlendis?

Endurheimt framræsts votlendis er ein af þeim aðgerðum sem loftslagsráð Sameinuðu þóðanna mælir með til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Í votum mýrum safnast upp lífrænt efni sökum þess að gróðurleifar rotna ekki vegna skorts á súrefni. Gróðurinn þjappast því saman undir vatninu og myndar með tímanum mólag, lífrænt efni sem geymir mikla orku.  

Þegar votlendi er ræst fram með skurðum, eins og tíðkaðist áratugum saman, hefst niðurbrot eða rotnun þessa lífræna efnis og við það losnar koltvísýringur út í andrúmsloftið. Þetta getur átt sér stað áratugum og árhundruðum eftir að lífræna efnið myndaðist. Er talið að einn hektari af framræstu landi losi um 19,5 tonn af gróðurhúsalofttegundum á ári. 

Á síðustu árum hefur vitundarvakning orðið í endurheimtingu votlendis. Þegar vatni er aftur hleypt á votlendi stöðvast niðurbrotið tiltölulega hratt því súrefni er ekki lengur til staðar fyrir niðurbrotsörverurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert