Gestir á endurvinnslustöðvum SORPU mega búast við umtalsverðum töfum og röðum við stöðvarnar á meðan hertar samkomutakmarkanir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu en vegna þeirra mega mun færri vera inni á endurvinnslustöðvunum en venjulega, að því er fram kemur í tilkynningu frá SORPU.
Í gær mynduðust töluverðar raðir við endurvinnslustöðvarnar og búast má við að tafirnar verði mestar um helgar. Fólk er því beðið að nýta frekar virka daga til að fara á endurvinnslustöðvar SORPU.
„Við hvetjum öll þau sem geta til að bíða með að fara með endurvinnsluefni til SORPU um helgar og reyna frekar að dreifa álaginu yfir virku dagana,“ er haft eftir Guðmundi Tryggva Ólafssyni, rekstrarstjóra endurvinnslustöðva SORPU.
Fólk er líka hvatt til að mæta ekki fleiri saman í bíl en þörf krefur til að hægt sé að hleypa fleirum í gegnum stöðvarnar. „Við skiljum vel að fólk vilji nota tímann í samkomubanni til að taka til í geymslunni. En eins og staðan er núna verðum við að biðja fólk að hjálpa okkur að dreifa álaginu,“ segir Guðmundur Tryggvi.
Sökum aðkomu eru raðirnar og tafirnar mestar á Dalvegi, við Sævarhöfða og í Ánanaustum.
SORPA hvetur fólk til að sýna ábyrgð og koma vel undirbúið á endurvinnslustöðvarnar til að valda ekki óþarfa töfum.
„Undirbúningur felst fyrst og fremst í því að vera búin að flokka endurvinnsluefni eftir bestu getu áður en komið er á endurvinnslustöð. Þannig er hægt að komast hjá því að valda sjálfum sér og öðrum enn meiri og óþörfum töfum,“ segir Guðmundur Tryggvi.
Þá vonar SORPA að fólk verði við þessum óskum og sýni aðstæðunum skilning.