Björn Birnir, stærðfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla, segir að Íslendingar geti notað hitaveituna gegn Covid-19, í skoðanapistli sem birtist á Vísi í dag. Hann hvetur stjórnvöld til að niðurgreiða hitaveitugjöld í eitt ár í þessu skyni. Björn segir að það geti skipt máli að Íslendingar kyndi vel en haldi loftræstingu eins góðri og mögulegt er.
„Fyrir nokkrum dögum gaf bandaríska sjónvarpsstöðin CNN yfirlit um hvernig Covid-19-sýkingin breiddist út um norðurhluta miðríkja Bandaríkjanna í byrjun september. Þetta er sá hluti landsins sem kólnar fyrst og íbúar þessara ríkja byrja fyrstir að kynda hús. Þetta er athyglisvert vegna þess að síðastliðið sumar hafði svipuð bylgja gengið yfir suður- og suðvesturhluta landsins þar sem sumarhitarnir verða mestir og loftkæling er nýtt af krafti inni í húsum,“ skrifar Björn Birnir.
„Það virðist vera í báðum tilfellum að fólk hafi eytt meiri tíma innandyra og hitunin og loftkælingin hafi haft neikvæð áhrif á loftgæðin. Það hefur komið í ljós að í lokuðu rými getur úði eða agnir sem innihalda vírusinn safnast saman og þéttist ef loftræstingin er ekki nógu góð. Núna eru íbúar í norðausturríkjum Bandaríkjanna, en þessi ríki náðu góðum árangri í að hefta útbreiðslu veirunnar í sumar, byrjaðir að kynda. Og nú má sjá merki þess að ný sýkingaralda sé að hefjast í norðausturríkjunum.“
Björn bendir á að Íslendingar séu svo heppnir að hita hús sín með heitu vatni sem sé ekki af skornum skammti. Íslendingar geti því opnað glugga til þess að gæta þess að loftræstingin sé nógu góð og skrúfað frá ofnunum til þess að nógu heitt sé í húsunum.
„Þeir geta semsagt notað hitaveituna gegn Covid-19. Þetta er ekki svo fráleit hugmynd vegna þess að gufuhitun var þróuð á sínum tíma til að berjast gegn berklasýkingum og þar var hugmyndin að hita nógu mikið, ofnarnir voru varðir með skáp svo að enginn brenndi sig, og allir gluggar opnaðir upp á gátt,“ skrifar Björn.
„Nú er hitaveitan náttúrlega ekki ókeypis en þetta er líklega kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að niðurgreiða hitaveitugjöld í eitt ár. Það eru líkur á að sýkingaraukninguna sem á sér stað á Íslandi um þessar mundir megi að einhverju leyti rekja til þess að fólk heldur sig meira innivið og kyndir meira þegar kólnar í lofti. Ef loftræstingu er ábótavant getur úðinn og agnirnar sem bera vírusinn þést í loftinu. Svo gott ráð er að setja ofnana á fullt, opna glugga og gæta þess að enginn brenni sig á heitum ofnunum.“