Leggja upp á stétt vegna bílastæðaeklu

Íbúar hafa gripið til þess ráðs að leggja bílum upp …
Íbúar hafa gripið til þess ráðs að leggja bílum upp á gangstéttir og gras. Ljósmynd/Aðsend

Óánægju gætir meðal íbúa á stúdentagörðum Byggingafélags námsmanna við Klausturstíg í Grafarvogi vegna framkvæmda við byggingu nýrra stúdentagarða á svæðinu. Vetktaki hefur tekið undir sig um 70% af bílastæði íbúa til að athafna sig með þeim afleiðingum að mikill skortur er á bílastæðum.

Af þeim sökum leggja íbúar bílum sínum um allar trissur, á gangstéttum, grasflötum og við innganginn að bílastæðinu, en starfsmenn bílastæðasjóðs hafa nokkrum sinnum sektað ökumenn fyrir að leggja á grasinu.

Baldur Hrafn Halldórsson er einn íbúa á stúdentagörðunum. Í samtali við mbl.is segir hann að íbúar séu ósáttir við samskiptaleysi byggingafélagsins. Framkvæmdir við byggingu nýrra blokka hófust í sumar og viðbúið að þær standi næstu tvö árin. Svo virðist sem íbúar þurfi að sætta sig við að vera án stærsta hluta bílastæðisins allan þann tíma. Hann segist hafa haft samband við verktakann til að spyrjast fyrir um þetta mál en ekki fengið nein svör af viti.

Íbúar í fimm blokkum Byggingafélags námsmanna deila bílastæðinu og búa í þeim yfir 100 manns.

En er einhver lausn í stöðunni? Þarf verktakinn ekki rými til að athafna sig?

„Það sem mér dettur helst í hug er að það væri hægt að koma upp tímabundnu malarbílastæði við Reynisvatnsveg,“ segir Baldur, en Reynisvatnsvegur er umferðargatan sem liggur upp að Klausturstíg. Þar er mikið ónýtt land sem gæti vel rúmað bílastæði.

Baldur segir að nauðsynlegt sé að grípa til einhverra aðgerða til að leysa bílastæðavandann enda sé lítið um laus stæði í nágrenninu. Næsta stóra bílaplan sé við verslunarkjarnann hjá KFC og Krónunni í 400-500 metra fjarlægð.

Stór hluti bílastæðisins hefur verið girtur af fyrir verktaka.
Stór hluti bílastæðisins hefur verið girtur af fyrir verktaka. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert