Stöndum á barmi byltingar

Davíð O. Arnar er heiðursvísindamaður Landspítalans árið 2020. Hann segist …
Davíð O. Arnar er heiðursvísindamaður Landspítalans árið 2020. Hann segist snemma hafa fengið „vísindabakteríu“. mbl.is/Ásdís

Á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut er ys og þys. Starfsfólk með grímu fyrir vitum þýtur önnum kafið um gangana og það er nóg að gera að sinna sjúklingum. Yfirlæknirinn Davíð O. Arnar gefur sér þó tíma til að hitta blaðamann en tilefni heimsóknarinnar er að Davíð var í vikunni útnefndur heiðursvísindamaður Landspítalans 2020. Davíð á að baki langan og farsælan feril sem hjartalæknir en hann brennur einnig fyrir vísindastarfi og hefur mikinn áhuga á samspili erfða og sjúkdóma. Við ræðum vísindin og ferilinn, en einnig áhuga hans á fyrirbærinu vellíðan og á snjalltækninni sem hann segir að geti bylt læknisfræði framtíðarinnar.  

Fékk vísindabakteríuna

Vísindastörf heilluðu Davíð snemma, en hann hefur alltaf unnið að vísindastörfum meðfram hefðbundinni vinnu sem læknir.

„Áhuginn kviknaði á fjórða ári í læknisfræði. Á meðan sumir segjast fá golf- eða veiðibakteríu, þá má kannski segja að ég hafi fengið vísindabakteríu. Mér finnst þetta passa mjög vel meðfram klínísku starfi því það vakna gjarnan spurningar og hugmyndir að vísindaverkefnum þegar maður er að stunda sjúklinga. Ég vann mikla vísindavinnu í sérnáminu í Bandaríkjunum og eftir að ég kom heim hef ég unnið mjög mikið með Íslenskri erfðagreiningu. Samstarfið byrjaði þannig að ég fór til þeirra með hugmynd úr klíníkinni. Ég hafði tekið eftir því þegar ég var að sinna sjúklingum með gáttatif, sem er algeng hjartsláttartruflun, að hjá einstaklingum sem greindust með sjúkdóminn ungir, sem er fremur óvenjulegt, voru stundum ættartengsl á milli þeirra. Þeir áttu það sömuleiðis margir sammerkt að gáttatifið var mjög erfitt í meðhöndlun. Ég fór að velta fyrir mér hvort það kynnu að búa erfðaþættir þar að baki. Ég talaði við Kára Stefánsson og við ákváðum að skoða þetta nánar og úr hefur orðið mjög árangursríkt og skemmtilegt samstarf,“ segir hann.

„Það hefur verið talað um að kransæðasjúkdómar erfist, en það var minna vitað með gáttatif. Okkar rannsóknir hafa sýnt að ef þú átt nákominn ættingja með gáttatif, þá næstum tvöfaldast áhættan hjá þér. Og ef þú átt ættingja sem greinst hefur með gáttatif undir sextugu, þá fimmfaldast sú áhætta. Þetta segir okkur það að erfðaþættir spila þarna rullu, og sérstaklega hjá þeim sem greinast yngri.

Rannsóknir okkar með Íslenskri erfðagreiningu hafa aukið grundvallarskilning okkar á sjúkdómnum. Við höfum hingað til haldið að gáttatif væri aðallega til komið vegna truflunar í rafkerfi hjartans en það kemur í ljós að sennilega skiptir hjartavöðvinn í gáttinni meira máli en við héldum,“ segir hann og nefnir að það skipti miklu máli að komast almennilega til botns í sjúkdómnum svo hægt sé að meðhöndla hann á réttan hátt.

Samstarfið við Kára einstakt

Davíð hrósar Íslenskri erfðgreiningu í hástert og samstarfinu sem hann segir hafa verið algjörlega frábært.

„Kynni mín við Kára hafa haft afgerandi áhrif á minn vísindaferil. Hann hefur reynst mér bæði frábær mentor og vinur,“ segir Davíð og segir þá hafa birt á fjórða tug vísindagreina sem læknar og vísindamenn erlendis hafi sýnt mikinn áhuga.
„Þessar greinar hafa undantekningarlaust birst í mjög virtum ritum, til dæmis í Nature og Nature Genetics. Þetta hefur verið skemmtileg vegferð og eru þessar niðurstöður þegar byrjaðar að hjálpa okkur við að bæta klíníska þjónustu.“

Hafið þið þá fundið eitthvað sem getur bætt heilsu fólks með gáttatif?

„Við erum farin að nýta erfðaupplýsingar meira og meira í klínískri vinnu á spítalanum. Ég held að það muni bara aukast. Svo hafa niðurstöðurnar hjálpað okkur að skilja gáttatif betur og á annan hátt en við gerðum í byrjun. En það er rétt að undirstrika að þetta er langhlaup, erfðafræðin getur verið flókin og túlkun niðurstaðna ekki alltaf augljós.

Fjarvöktun á einkennum

„Ég hef velt mikið fyrir mér hvernig hægt sé að koma betur þessum skilaboðum um heilbrigðan lífsstíl áleiðis. Það er stundum erfitt í stuttu viðtali við sjúkling, en ég tel að snjalltækni gæti verið áhugaverður kostur í þessu tilliti. Margir nota snjallsímann nú þegar til að skrá ýmsar heilsufarslegar upplýsingar um sig; púls, öndunartíðni, súrefnismettun, blóðþrýsting, svefnmynstur og hreyfimynstur sem dæmi. En kannski gætum við bætt um betur og nýtt þessa tækni til að koma upplýsingum um lífsstílsbreytingar og hvatningu til sjúklinga. Við getum líka nýtt okkur snjallsímana betur til að fylgjast með sjúklingum; verið með einhvers konar fjarvöktun á einkennum þeirra. Við erum einmitt með tilraunaverkefni á hjartadeildinni sem gengur út á fjarvöktun einstaklinga með hjartabilun sem er gríðarlega áhugavert,“ segir Davíð og útskýrir að fólk notar þá snjallforrit til að svara spurningum um líðan og fær þá skor sem birtist í grænum, gulum eða rauðum litum, eins og umferðarljós. Davíð segir að þetta gæti reynst mjög vel og hjálpað að forgangsraða og meta sjúklinga.

„Þeir sem eru þá alltaf á grænum lit þurfa kannski ekki að koma jafn títt á göngudeild. Þeir sem eru á gulu eða rauðu þurfa meiri athygli,“ segir hann.

„Við stöndum eiginlega á barmi byltingar í heilbrigðisþjónustu, bæði hvað varðar framfarir í erfðafræði, sér í lagi raðgreiningu erfðamengis, og svo í að nýta snjalltæknina. Hvort tveggja er ofboðslega spennandi. Þótt bein samskipti lækna og sjúklinga séu og verði áfram mjög mikilvæg þá verður vinnulag okkar að þróast með tækninni.“

Mikil viðurkenning

Landspítalinn hefur í fimmtán ár útnefnt heiðursvísindamann ársins. Sá er útnefndur sem þykir hafa skarað fram úr í vísindavinnu á sínum ferli. Í ár er Davíð O. Arnar heiðraður og er hann að vonum ánægður. Hann vill þó deila þessum heiðri með samverkafólki sínu.
„Þetta er ofboðslega mikil viðurkenning og ekki síst fyrir þá sem hafa unnið með mér. Þetta er teymisvinna og samstarfsaðilarnir skipta höfuðmáli. Þetta er fyrst og fremst viðurkenning fyrir verkefnin sem við höfum unnið saman.“

Ítarlegt viðtal er við Davíð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert