46 einstaklingar á öllum aldri hafa þurft innlögn á Landspítalann vegna kórónuveirunnar í þriðju bylgju faraldursins hér á landi. Nú eru 23 inniliggjandi, þarf af tveir á gjörgæslu.
Fram kemur í stöðuskýrslu almannavarnadeildar að töluvert álag sé hjá aðgerðarstjórn en ástandið sé þó í jafnvægi.
50 greindust með veiruna innanlands í gær, þar af voru 33 í sóttkví. Þá greindust 5 smit við landamærin.
Áfram er mikið álag á Covid-göngudeild Landspítalans, en veikindi sjúklinga eru sögð sambærileg því sem var í fyrstu bylgju faraldursins.
Mikið álag er á Farsóttarhúsinu, en þar eru nú 86 gestir, meðal annars 65 sem eru í einangrun.
Smitrakning gengur vel en mikið álag er á smitrakningarteyminu. Einstaka tilfelli eru flókin í rakningu eftir því sem segir í stöðuskýrslunni.