Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, gerir ráð fyrir því að stjórn Neyðarlínunnar og embætti ríkislögreglustjóra muni funda í dag eftir að ábending um eld í húsbíl skilaði sér ekki til lögreglunnar.
Skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöld barst Neyðarlínunni ábending um eld í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu sem skilaði sér ekki til lögreglunnar. Önnur tilkynning barst lögreglunni daginn eftir, klukkan 13.30 á laugardag. Þá var bíllinn illa útleikinn og mikið brunninn. Rannsókn leiddi í ljós að líkamsleifar manns á fertugsaldri voru í bílnum.
Oddur staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær og sagði að skoðað yrði hvernig stæði á því að tilkynningin hefði ekki ratað á borð lögreglu.
Í samtali við mbl.is segir Oddur að rannsókn á andláti mannsins sé í gangi. Spurður hvernig málið sé rannsakað segir hann að lögreglan gefi sér í upphafi að allt gæti hafa gerst. Allar kenningar verði rannsakaðar.
Hann bætir við að von sé á tilkynningu frá lögreglunni vegna málsins.