„Við reiknum með því að við munum sækja okkur tekjur á almennan markað upp á um 1.800 milljónir og það er ekki búið að nefna eitt eða neitt við stjórnina að til standi að taka RÚV af auglýsingamarkaði,“ segir Guðlaugur G. Sverrisson, fulltrúi Miðflokksins í stjórn Ríkisútvarpsins.
Nýlega var samþykkt í stjórn Ríkisútvarpsins að veita útvarpsstjóra umboð til að ganga frá og undirrita þjónustusamning á grundvelli samnings eða draga að samningi sem ræddur var í stjórninni.
Í frétt í Morgunblaðinu á laugardag segir að Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og menntamálaráðherra, hafi gert nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið, sem var ofmælt þar sem samningurinn hefur ekki verið undirritaður. Lilja hefur gert athugasemdir við fréttaflutninginn og segir meðal annars að aðeins hafi verið um drög að ræða.
Stjórnarmaður í RÚV sem vildi ekki koma fram undir nafni segir að það hafi verið skilningur stjórnar að samningurinn væri svo til tilbúinn til undirritunar en Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra væri falið að fara yfir ýmisleg smávægileg atriði til þess að klára samninginn. Þá bendir hann á það að hlutverk stjórnar sé að gera þjónustusamning miðað við núgildandi lög. Ef áhugi sé á því að breyta fyrirkomulagi um RÚV á auglýsingamarkaði þá þurfi að ræða það á Alþingi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinnu í dag.