Gerir ríkisstjórnin sér grein fyrir ástandinu?

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvaða helstu rök sér hæstvirts forsætisráðherra gegn því að hækka grunnatvinnuleysisbætur við núverandi aðstæður?“ spurði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

Enn fremur sagði Logi að að minnsta kosti 12.000 manns væru á grunnatvinnuleysisbótum og ekki stæði til að hækka þær samkvæmt fjárlögum.

Ekki útilokað hækkun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að hún hefði fengið sömu spurningu frá Loga í síðustu viku þar sem hún gat ekki komið með afgerandi rök gegn hækkun atvinnuleysisbóta. Henni finnist því spurningin frekar kúnstug.

Hins vegar hef ég sagt að það þurfi að skoða það núna í heildarsamhengi hlutanna. Hæstvirtur þingmaður hafði það réttilega eftir mér að við fórum strax í það verkefni að hækka atvinnuleysisbætur því að þær voru orðnar mjög fjarri lágmarkslaunum. Þær væru u.þ.b. 235.000 kr. ef þær hefðu ekki verið hækkaðar 2018, sem var staðan þá. Þær eru núna u.þ.b. 290.000 kr.,“ sagði Katrín.

„Að því sögðu hef ég hvorki útilokað að upphæð atvinnuleysisbóta verði tekin til endurskoðunar né heldur upphæðir almannatrygginga, þannig að ég veit eiginlega ekki af hverju þingmaður er að biðja mig um að fara með sérstök rök gegn hækkun atvinnuleysisbóta. Kannski getur hann útskýrt af hverju hann er svona spenntur fyrir því að heyra það í síðari fyrirspurn,“ sagði Katrín.

Logi sagði ekki gert ráð fyrir hækkunum í fjárlögum eða fjármálaáætlun. 

Ekki snerta á sömu hlutunum

„Það er eins og ríkisstjórnin geri sér ekki almennilega grein fyrir ástandinu sem við erum stödd í. Fjöldaatvinnuleysi er sóun sem við höfum ekki efni á, en samt sem áður er leið ríkisstjórnarinnar að gera ráð fyrir einu prósentustigi í lækkun á atvinnuleysi á næsta ári. Samfylkingin hefur kynnt ábyrgu leiðina. Ég vona að hæstvirtur forsætisráðherra gefi sér tíma til að kynna sér hana. Ég skil hana eftir hér á borðinu og það væri gaman að fá viðbrögð hæstvirts ráðherra við henni,“ sagði Logi en við það bað Steingrímur Sigfússon, forseti Alþingis, þingmenn um að vera ekki mikið að snerta á sömu hlutunum.

Katrín kvaðst ekki verða vör við grundvallarágreining á stefnu Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

„Ég les það og skil það þannig að þær áherslur séu ekki fjarri áherslum ríkisstjórnarinnar, þ.e. stóra verkefnið snýst um það hvernig við getum unnið bug á atvinnuleysi, hvernig við getum tryggt að atvinnuleysi verði hér ekki viðvarandi samfélagsmein, hvernig við getum tryggt að fólk festist ekki í atvinnuleysi til langs tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert