Hvetur fólk til þess að henda grímum í ruslið

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvetur fólk til þess að huga að einstaklingsbundum sóttvörnum nú þegar kórónuveiran stendur sem hæst. Hann segir að hvernig sem skoðanir fólks eru á núgildandi samkomutakmörkunum verði allir að leggjast á eitt; þvo hendur, spritta vel og nota andlitsgrímur þar sem við á. Hins vegar bendir hann á að andlitsgrímur sjáist víða úti í náttúrunni og hvetur fólk til þess að henda þeim í ruslið að notkun lokinni.

„Gaman er að sjá hversu margir halda hingað út á Álftanes og Bessastaðanes til að njóta útivistar, gangandi, hjólandi eða hlaupandi. Hér þarf bévítans veiran þó enn að minna á sig, af einhverjum völdum rekst maður á andlitsgrímur í guðsgrænni náttúrunni og birti ég tvær myndir hér því til sanninda. Ég hvet fólk til að koma grímum í ruslið að notkun lokinni,“ segir forsetinn í vikulegum pistli sínum.

Guðni fór einnig í pistli sínum yfir það sem á daga hans hefur drifið í liðinni viku. Til að mynda hélt Guðni opnunarerindi á alþjóðlegri ráðstefnu, Faith for Nature, og fór í göngu með umhverfisverndarsinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert