Hyggst leggja niður mannanafnanefnd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mælir fyrir frumvarpi á Alþingi í dag, þar sem gerðar eru róttækar breytingar á mannanafnalögum sem meðal annars fela í sér að mannanafnanefnd verði lögð niður.

Verði frumvarpið að lögum segir Áslaug að fólk muni hafa frelsi til að bera það nafn sem það kýs, að taka upp nýtt ættarnafn og að engin hámörk verði á fjölda nafna fólks. 

Hugmyndir á borð við þær sem fram koma í frumvarpinu hafa lengi verið til umræðu en frumvarpið eins og það er lagt fram núna er ólíkt öðrum sem fram hafa komið. Ýmsir aðilar hafa veitt umsögn um efni þess nú, þar á meðal Ármann Jakobsson, prófessor og formaður Íslenskrar málnefndar.

Ármann Jakobsson prófessor.
Ármann Jakobsson prófessor. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Ættarnöfn muni ekki gera útaf við föðurnöfn

Í umsögn sinni segir Ármann tilefni til að endurskoða lögin en leggur til að þrátt fyrir að það verði gert, haldi mannanafnanefnd velli, enda sé mikilvægt að slík nefnd sé til staðar til að veita ráðgjöf um þessi efni.

Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur í sinni umsögn að engin ástæða sé til að óttast þessar lagabreytingar og vill að lagðar séu sem minnstar hömlur á form og eðli mannanafna. Breytingar í þá átt skaði ekki íslenska tungu og Eiríkur telur að jafnvel þó að upptaka ættarnafna verði leyfð, muni það ekki nauðsynlega leiða til þess að föðurnafnahefð leggist af.

Samkvæmt heimildum mbl.is fer stuðningur við frumvarp Áslaugar ekki eftir hefðbundnum flokkslínum. Ekki er loku fyrir það skotið að það nái fram að ganga.

 Fréttin var uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert