Rólegheit eru í veðrinu núna í byrjun vikunnar, hæg breytileg átt víðast hvar en stöku vindstrengir undir Vatnajökli fyrir hádegi. Lítilsháttar væta framan af degi en léttir síðan til. Milt veður.
„Þetta hæglætisveður er afleiðing hæðar sem er að byggjast upp sunnan landsins og spár gera ráð fyrir því að hún muni síðan koma sér fyrir fyrir austan land og gera sitt besta til þess að halda næstu lægðum að mestu leyti fyrir vestan okkur. Þó er líklegt að einhver skil muni ná inn á Suðvestur- og Vesturland í vikunni með suðaustan vindstreng og lítilsháttar vætu en annars verða að mestu hægir vindar og bjartviðri.
Næstu helgi er síðan útlit fyrir að það snúist í norðlægar áttir með hægt kólnandi veðri og úrkomu norðan til á landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Vestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s með morgninum en norðvestan 10-18 suðaustanlands í fyrstu. Stöku skúrir um vestanvert landið en lítilsháttar rigning austan til. Dregur úr vætu og birtir til er líður á daginn. Sunnan 5-10 norðvestan til í kvöld.
Vaxandi suðaustanátt vestan til á morgun, 8-15 seinnipartinn, en annars sunnan 3-10 m/s. Suðaustan 15-23 á norðanverðu Snæfellsnesi seint á morgun. Léttskýjað, en þykknar upp með dálítilli rigningu sunnan- og vestanlands annað kvöld. Hiti 5 til 11 stig.
Á þriðjudag:
Sunnan 3-10 en 10-15 vestast á landinu síðdegis. Skýjað að mestu og þurrt að kalla sunnan- og vestanlands en lítilsháttar væta um kvöldið. Léttskýjað um landið norðan- og austanvert. Hiti 4 til 9 stig.
Á miðvikudag:
Stíf suðaustlæg átt og rigning sunnan- og vestanlands en annars hægari vindur og þurrt. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag:
Suðaustan 8-15 m/s, skýjað og lítilsháttar væta suðvestan til en annars hæg breytileg átt og bjartviðri. Hiti 5 til 10 stig.
Á föstudag:
Austlæg eða breytileg og léttskýjað en stöku skúr um sunnanvert landið. Milt í veðri.
Á laugardag:
Hæg norðlæg átt, skýjað og dálítil úrkoma norðan til en bjart að mestu syðra. Hægt kólnandi.
Á sunnudag:
Útlit fyrir stífa norðlæga átt og úrkomu um allt land. Kólnandi.