Ákveðið var á hluthafafundi Arnarlax AS að breyta heiti félagsins í Icelandic Salmon AS.
Kemur þetta fram í tilkynningu stjórnar félagsins til Notc-hlutabréfamarkaðarins í kauphöllinni í Osló þar sem hlutabréf félagsins eru skráð. Kjartan Ólafsson, formaður stjórnar Arnarlax, gefur þá skýringu í skilaboðum að nafnbreytingin nái aðeins til hins norska eignarhaldsfélags Arnarlax.
Arnarlax vinnur að skráningu á Merkur-hlutabréfamarkaðnum í kauphöllinni í Osló og hyggst bjóða út ný hlutabréf í því sambandi. Aukningin er um 10% núverandi hlutafjár. Verð hlutanna hefur ekki verið ákveðið.
Hlutabréf félagsins standa nú í 130 norskum krónum á Notc-markaðnum og er verðmæti skráðra hlutabréfa þar um 3,5 milljarðar norskra króna. Samsvarar það um 52 milljörðum íslenskra króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.