Nýtt frumvarp „efnismeira“ og mun ná í gegn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að frumvarp sitt um breytingar á löggjöf um mannanöfn sé „efnismeira og ítarlegri vinna hafi farið í umdeild atriði“ en þau sem hafa á undan komið. Með frumvarpinu yrði mannanafnanefnd að óbreyttu lögð niður. Hún segir að markmiðið með þessu frumvarpi sé þó það sama og hefur verið með öðrum frumvörpum: að auka frelsi fólks.

„Þetta frumvarp kveður á um að foreldrar fái aukið frelsi til þess að nefna börn sín og að einstaklingar fái aukið frelsi til þess að ráða eigin nafni,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is

„Einnig kveður það á um að einstaklingar geti tekið upp ný ættarnöfn, að börn 15 ára og eldri fái að ráða sjálf eigin nafni og ákveðin takmörk á að foreldrar geti ekki gefið börnum sínum nöfn sem séu þeim til ama.“

Ekki ógn við íslenska tungu

Hún segist ósammála því að verið sé að stefna íslenskri tungu og nafngiftarhefð í hættu.

„Íslenskri mannanafnahefð stendur ekki ögn af breytingum, hefðin varð ekki til með núgildandi lögum og verður ekki viðhaldið með lagasetningu. Núverandi löggjöf um mannanöfn er frá 1996 og mannanafnanefnd sjálf frá 1991 og það má öllum vera ljóst að nafngiftarhefð og málvenjur í íslenskri tungu eigi sér mun lengri sögu en það,“ segir Áslaug.

Frumvörp um sama málaflokk áður felld

Frumvarp Viðreisnar frá árinu 2018 um breytingar á lögum um mannanöfn var fellt með töluverðum meirihluta. Áður hefur verið greint frá því á mbl.is að heimildir hermi að þingmenn fylgi ekki alveg flokkslínum þegar kemur að frumvarpi dómsmálaráðherra nú. Þrátt fyrir það segist Áslaug vongóð.

„Það eru mismunandi skoðanir á málinu innan míns þingflokks og stjórnarflokkanna, en ég tel að með þessu frumvarpi sé litið til ólíkra sjónarmiða og gengið ákveðinn milliveg í nauðsynlegum breytingum. Hins vegar hef ég mikla trú á að þetta mál klárist að þessu sinni.

Þetta frumvarp er efnismeira en fyrri frumvörp og tekið hefur verið tillit til ýmissa athugasemda sem hafa komið fram í umræðu um þessi mál og því er ég vongóð um að þetta mál klárist að þessu sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert