Heiðrún Finnsdóttir missti föður sinn og stjúpmóður í mótorhjólaslysi á Kjalarnesi í sumar. Á vegarkaflanum sem slysið varð á var nýtt malbik sem var afar hált og stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar. Heiðrún segir Vegagerðina hafa vitað af hættunni sem þarna var.
Finnur Einarsson og Jóhanna S. Sigurðardóttir létust í slysinu, en parið var á ferð á mótorhjóli þegar það kom inn á nýmalbikaðan veg á Kjalarnesi. Komið hefur fram að yfirlögnin hafi ekki uppfyllt skilyrði og var mun hálla á veginum en vænta mátti og kröfur eru gerðar um.
Heiðrún var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hún ræddi um slysið.
„Þau voru stórkostleg. Hún var einhver fallegasta manneskja sem ég þekki. Alltaf svo yndisleg og fín til fara og hún var svona heldur hógværari en pabbi. Og hún var eiginlega hjartað og svona hlýjan. En pabbi, það fylgdi honum svolítill hávaði, mikill húmoristi og fór mikið fyrir honum, fólk tók eftir honum alls staðar þar sem hann kom. Hann var vinamargur og vel liðinn. Þeir sem hann kynntist urðu bara vinir hans og hann átti þá alla sína tíð,“ sagði Heiðrún um föður sinn og stjúpmóður.
Finnur var 54 ára og Jóhanna 53 ára þegar þau létust.
„Þetta er alls ekki hár aldur, ekki í dag. Þetta er fólk í blóma lífsins,“ sagði Heiðrún.
Heiðrún segir að Jóhanna og Finnur hafi verið á leiðinni heim úr Vestfjarðarferð þegar slysið varð.
„Ég fékk símtal frá rannsóknarlögreglunni og þar kynnir sig lögreglumaður og þá bara vissi ég þetta. Ég vissi um leið að pabbi væri dáinn. Ég stend inni í Krónunni í Lindum þegar símtalið kemur og var með strákinn minn og manninn minn með mér og maðurinn minn hann bara sér að það er eitthvað mikið að því ég snarstoppa. Lögreglumaðurinn kynnir sig og biður mig um að koma á heimili pabba og ég neita því nema hann segi mér hvort að pabbi sé dáinn. Sem hann náttúrulega vill ekki gera í símann... en ég næ því upp úr lögreglumanninum að pabbi minn sé dáinn og það var allt sem ég þurfti að vita, ég vissi að það var mótorhjólaslys, það var bara engin önnur útskýring á að pabbi minn væri dáinn,“ segir Heiðrún.
Heiðrún segist ekki hafa áttað sig strax á því að Jóhanna hafði einnig látist. Það hafi ekki verið fyrr en í leigubílnum á leiðinni á heimili Jóhönnu og Finns að hún heyrði í fréttum að tveir einstaklingar höfðu verið á hjólinu þegar slysið varð. Hún segist hafa haldið í vonina en að hún hafi ekki varað lengi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur sagst ekki í nokkrum vafa um að banaslysið verði til þess að breyta verkferlum í vegamálum.
Lögreglu og Vegagerð bárust fjölmargar ábendingar um að akstursaðstæður á vegkafla á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi væru varasamar áður en slysið varð. Þá er ljóst að yfirlögn á vegarkaflanum uppfyllti ekki skilyrði að mati Vegagerðarinnar.
Heiðrún segir engan frá Vegagerðinni hafa haft samband við sig eða systkini sín til að bjóða aðstoð eða afsökunarbeiðni vegna slyssins, en Vegagerðin hefur þó beðist afsökunar í fjölmiðlum.