Þjónar Íslendingum í Alicante

Ragnheiður hefur tekið að sér margs konar guðsþjónustu fyrir íslenska …
Ragnheiður hefur tekið að sér margs konar guðsþjónustu fyrir íslenska borgara á Spáni. Hér er hún við bálför Helgu Ásgeirsdóttur í San Javier í janúar 2019. Ljósmynd/Aðsend

Séra Ragnheiður Karítas Pétursdóttir stefnir á að dvelja á Spáni næstu vetur og bjóða Íslendingum á Spáni upp á prestsþjónustu en hún veitir nú sálgæsluviðtöl, fyrirbænir og aðra aðstoð sem tengist áföllum í gegnum fjarfundabúnað, í ljósi ástandsins í samfélaginu.

„Mér hefur fundist dálítið sárt að það sé ekki prestur þarna niður frá. Ég skil vel að kirkjan getur ekki sent presta til Spánar þar sem þar er ekki formlegur söfnuður og óvitað um þörf. Svo ég ákvað að meta þörfina sjálf og bjóða upp á þessa þjónustu,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Skírnir, bálfarir og fermingar

Ragnheiður er nú búsett í Noregi en hefur alltaf verið með annan fótinn á Spáni, þar sem hún hefur lokið námskeiðum í sálfræði, sálgæslu og grunnnámi við þrjá háskóla þar auk þess að hafa búið í Madríd, Murcia og Alicante.

„Ég hef mikið verið með sálgæsluviðtöl við fólk sem býr á Spáni. Fólk hefur núna verið að leita til mín í auknum mæli svo ég ákvað að gefa öllum tækifæri, ekki bara þeim sem ég þekki persónulega heldur öllum sem þurfa á þjónustunni að halda,“ segir hún.

Geti leitað til fagaðila

Hingað til hefur Ragnheiður annast ýmsa prestsþjónustu í Alicante í þágu Íslendinga; skírnir, bálfarir, fermingar, sálgæsluviðtöl og heimsóknir til fanga og sjúklinga á sjúkrahúsum hafa verið á meðal hennar verkefna á Spáni, sem hún hyggst sinna að nýju í vetur. 

„Ég þekki marga á svæðinu og síðan var ég sjálf á Spáni þegar útgöngubannið skall á. Það er alvarlegt ástand núna á Spáni og ég kannast við hversu erfitt það er, að vera í útgöngubanni,“ segir Ragnheiður og heldur áfram: 

„Mig langar að halda úti þjónustu á svæðinu svo að fólk upplifi að það geti leitað eitthvert. Þeir sem hafi um sárt að binda geti leitað til fagaðila,“ segir Ragnheiður, en hún tekur við beiðnum um prestsþjónustu á Facebok-síðu sinni.

Séra Karítas.
Séra Karítas. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert