Árangurinn kemur hægar fram en í vor

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mun skila minnisblaði til ráðherra um næstu skref sóttvarnaaðgerða síðar í vikunni. Núgildandi takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu renna að óbreyttu út næstkomandi mánudag, 19. október.

Alls greindust 83 kórónuveirusmit innanlands í gær en tekin voru 3.129 sýni. Í samtali við mbl.is segir Þórólfur að sú niðurstaða sé í samræmi við væntingar. Tekin hafi verið mun fleiri sýni en daginn áður og því eðlilegt að smitum fjölgi.

„Við erum að sjá það að árangurinn af aðgerðum kemur hægar fram en hann gerði í vor. Veiran virðist vera búin að grafa meira um sig í samfélaginu en þá,“ segir Þórólfur og bætir við að það sé sama reynsla og hjá nágrannaþjóðum okkar. Þórólfur hefur áður sagt að þessi vika muni skera úr um árangurinn af núgildandi sóttvarnaaðgerðum.

Hefur trú á að fólk fylgi reglum

Tuttugu og tveir eru inniliggjandi á Landspítala með Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu. Þórólfur segir stöðuna nokkuð þokkalega með tilliti til Covid en mikið álag sé á spítalanum vegna annarra veikinda; meira en í vor og því sé mikilvægt að forða því að innlögnum fjölgi.

Nokkuð hefur verið skrifað um einstaka brot á sóttvarnareglum og tilmælum, og hafa íbúar á höfuðborgarsvæðinu til að mynda skellt sér í sund eða golf í nágrannasveitarfélög. Spurður hvernig hann telji fólk framfylgja reglunum segir Þórólfur að erfitt sé að hafa góðan mælikvarða á það. „Ég held þó í megindráttum að fólk fari vel eftir þessu, passi sig að safnast ekki saman og virði tveggja metra reglu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert