Fjöldi nýrri kórónuveirusmita í hinum norrænu ríkjunum er ekkert í líkingu við stöðuna á Íslandi. Ef eitthvað er þá eykst munurinn dag frá degi. Alls eru 257,4 smit á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu. Þetta er heldur hærri tala en nýgengi innanlandssmita á covid.is.
Í Danmörku eru 98,8 smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar og í Svíþjóð eru þau 72,5. Í Finnlandi eru smitin 44,9 og í Noregi 34,3 á hverja 100 þúsund íbúa að því er segir á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu.
Tékkland er sér á parti þegar kemur að fjölda smita en þau eru 521,5 á hverja 100 þúsund íbúa. Belgía kemur næst með 429,5 og Holland er í þriðja sæti með 387 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Spánn og Frakkland eru á svipuðum stað eða tæp 300 smit og Bretland er með 268,1 smit á hverja 100 þúsund íbúa.
Samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar er tæplega 1,1 milljón látin af völdum Covid-19 og tæplega 38 milljónir hafa smitast. Í gær létust 4.126 og tæplega 300 þúsund greindust með veiruna í gær. Bandaríkin eru áfram það land þar sem dauðsföllin eru flest eða rúmlega 215 þúsund af þeim 7,8 milljónum sem hafa greinst með Covid-19.
Í Evrópu eru smitin orðin rúmlega 6,6 milljónir og af þeim eru yfir 243 þúsund látin.