Greina ekki strax frá nafni mannsins

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi mun ekki greina frá nafni mannsins sem lést þegar húsbíll brann í Grafningi í Árnessýslu fyrr en búið er að bera kennsl á líkið með formlegum hætti.

„Ef það er hægt út frá gögnum úr krufningunni gerist það fljótlega en ef það þarf að gerast með DNA-greiningu eru einhverjar vikur í það,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, en rannsóknarstofa í Svíþjóð annast DNA-greiningar fyrir lögregluna á Norðurlöndum.  

Talið er að sá sem lést sé á fertugsaldri. „Við teljum okkur vita með 99,9% vissu að þetta sé hann en við viljum fá þetta klárt og eftir prótókólinu,“ bætir Oddur við.

Spurður út í eldsupptök segir hann að verið sé að vinna í því verkefni og það gæti tekið einhverjar vikur.

mbl.is/Eggert

Fólk hafði samband í allan gærdag

Lögreglan óskaði eftir því að heyra frá fólki sem var á ferðinni í Grafningi og þar í grennd frá klukkan 22 og fram að miðnætti á föstudagskvöld og segir Oddur að fólk hafi haft samband í allan gærdag. „Við höfum fengið ótrúleg viðbrögð við þessu.“ Aðspurður segir hann hópinn ekki skipta tugum en að töluverður fjöldi hafi haft samband.

Engar ábendingar hafa aftur á móti borist vegna mögulegrar umferðar ökutækis við brunavettvanginn.

Hönnunargalli í tölvukerfi Neyðarlínunnar, sem olli því að símtal um eldinn í húsbílnum skilaði sér ekki til lögreglunnar, var lagaður á áttunda tímanum í gærkvöldi, að sögn ríkislögreglustjóra í gær.

Auk karlmannsins sem lést drápust þrír hundar hans. Ábending barst Neyðarlínunni skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöld sem rataði ekki til lögreglunnar. Önnur til­kynn­ing barst lög­regl­unni dag­inn eft­ir, klukk­an 13.30 á laug­ar­dag. Þá var bíll­inn illa út­leik­inn og mikið brunn­inn. Rann­sókn leiddi í ljós að lík­ams­leif­ar mannsins voru í bíln­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert