„Háþrýstiþvo burt sannleikann“

Jón Þór Ólafsson.
Jón Þór Ólafsson. mbl.is/​Hari

Það er táknrænt að þegar stjórnvöld komast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórnarskránni undir teppið þá beinlínis háþrýstiþvo þau burt sannleikann um vanvirðingu þeirra við þjóðarviljann,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata á Alþingi í dag.

Hann og samflokksmaður hans, Björn Leví Gunnarsson, fjölluðu um hugmyndir um nýja stjórnarskrá og vegg­inn við Skúla­götu sem búið var að mála á stór­um stöf­um: Hvar er nýja stjórn­ar­skrá­in? Skil­boðin fengu að lifa afar stutt á meðan veggjakrot allt í kring fær að standa. 

„Veggur sem staðið hefur óáreittur árum saman, þakinn veggjakroti, er skyndilega orðinn forgangsverkefni í Stjórnarráðinu. Það hefur ekki hvarflað að stjórnvöldum eina einustu sekúndu að hreinsa vegginn. Það þurfti ekki nema eina saklausa spurningu: Hvar er nýja stjórnarskráin? Hvar er hún?“ spurði Jón Þór undir liðnum störf þingsins nú eftir hádegið.

Jón Þór hvatti fólk til að fara inn á vefinn nystjornarskra.is og skrifa undir áskoun til þingmanna um að lögfesta stjórnarskrána frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. Kristinn Magnússon

Björn Leví vitnar í fréttir dagsins þar sem fram kemur að rekstrarfélagi Stjórnarráðsins hafi borist ábending frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um áletrun sem máluð hafi veirð á vegg við húsnæði ráðuneytisins um helgina. Samningur frá því síðla sumars fæli í sér að allt óumbeðið veggjakrot væri þrifið.

„Veggjakrotið var ekki þrifið“

„En veggjakrotið var ekki þrifið, bara spurningin um hvar nýja stjórnarskráin væri, það sést á mynd sem var tekin fyrir u.þ.b. hálftíma. Það er fullt af veggjakroti þarna rétt við hliðina sem einhvern veginn fór algerlega fram hjá þessum góðu háþrýstiþvottaspúlurum. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta hafi verið fyrsta veggjakrotið sem þeir tóku eftir. Ef þeir hefðu litið örlítið lengra til vinstri hefðu þeir séð fullt af veggjakroti,“ sagði Björn Leví.

„Við erum dálítið í þeirri aðstöðu að ríkisstjórnin er veggur sem stendur í vegi fyrir breytingum á stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil bara spyrja þessarar einföldu spurningar: Af hverju er ekki búið að spúla þeim vegg í burtu?“ spurði Björn Leví enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka