Utanríkisráðherra telur að það hefði verið sérkennilegt að hafna boði Filippseyja um samtal um að bæta stöðu mannréttinda í landinu. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa gagnrýnt ályktun Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt samhljóða á vettvangi ráðsins.
Ályktunin, sem snýr að Filippseyjum, er tapað tækifæri til að ná fram réttlæti fyrir þolendur aftaka án dóms og laga að mati Amnesty International.
„Í stað þess að hefja nauðsynlega alhliða rannsókn á mannréttindaástandinu á Filippseyjum, er mælst til í ályktuninni, undir forystu Íslands og Filippseyja, að mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna veiti Filippseyjum „tæknilega aðstoð,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um málið að Ísland hafi á undanförnum árum verið í forystu þeirra ríkja í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem hafa gagnrýnt víðtæk mannréttindabrot á Filippseyjum í nafni stríðs gegn fíkniefnum.
„Ályktunin sem samþykkt var samhljóða á vettvangi ráðsins í síðustu viku sýnir að þessi málafylgja okkar hefur borið árangur því hún felur í sér að filippseysk stjórnvöld fallast á að taka upp samstarf við mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Þetta er að okkar viti mikilvæg forsenda þess að ná megi fram úrbótum. Okkur er kunnugt um væntingar alþjóðlegra mannréttindasamtaka um óháða alþjóðlega rannsókn og harðorðari fordæmingu á framgöngu stjórnvalda Filippseyja,“ segir í svarinu.
„Nú hafa stjórnvöld á Filippseyjum hafið samtal við Sameinuðu þjóðirnar um að bæta stöðu mannréttinda í landinu og hefðu það verið sérkennileg skilaboð að hafna því. Ef þau aftur á móti standa ekki við þessi gefnu fyrirheit þá er ályktunin skýr um að mannréttindafulltrúinn haldi mannréttindaráðinu upplýstu og hvort staðið sé við þær skuldbindingar sem eru í ályktuninni.“
Guðlaugur áréttar einnig að utanríkisráðuneytið hafi átt „mjög gott samstarf við Amnesty International og fleiri mannréttindasamtök í tengslum við aðild okkar að mannréttindaráðinu og skiljum þeirra sjónarmið. Í því sambandi má samt halda til haga að þau hafa lýst yfir ánægju með ýmsa þætti ályktunarinnar og bent á að með henni sé stjórnvöldum á Filippseyjum haldið áfram við efnið.“