Íslendingar vonast til þess að þegar fólk bókar fyrsta ferðalagið yfir hafið að loknum heimsfaraldri þá verði Ísland þeirra fyrsti kostur. Þetta kemur fram í grein New YorkTimes um ferðaþjónustuna á Íslandi á tímumCovid-19. Það segir kannski sína sögu um stöðu mála að í dag fara tvær farþegaþotur frá Keflavíkurflugvelli, vél Icelandair sem flaug til Kaupmannahafnar í morgun og flugBritishAirways til London. Öllu öðru flugi hefur verið aflýst í dag.
„Þetta er undarlegt,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Radisson Blu hótel Sögu, við blaðamann New York Times. Þar vísar hún til þess að í venjulegu árferði væri hótelið fullt af ferðamönnum sem vildu sjá norðurljósin, skoða fossa og nýta sér jarðböðin. Þess í stað er allt tómt. Starfmenn eru nú 16 talsins en voru 140 í mars. Í september var herbergjanýtingin 11%.
Hótelið hefur skorið allt niður eins og hægt er og segir Ingibjörg að staðan sé sú sama hjá öðrum þrátt fyrir stuðning frá hinu opinbera.
Í grein NYT segir að Íslendingar búi sig undir verulega fjölgun ferðamanna þegar faraldurinn er að baki. Íslenska ríkið sé að fjárfesta fyrir meira en 12 milljónir bandaríkjadala, 1,7 milljarða króna, í innviðum ferðaþjónustu auk þess sem unnið sé að vegagerð og hafnarframkvæmdum. Yfir 9 milljónir bandaríkjadala hafi verið settir í ferðaávísanir til íslenskra ríkisborgara og annarra íbúa landsins.
Rætt er við fjölmarga í greininni, þar á meðal Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Hún segir Íslendinga stolta af menningu sinni og náttúru. Flestir Íslendingar séu mjög jákvæðir í garð ferðamanna.
Viðmælendur NYT voru spurðir út í hvernig þeir mætu stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi þegar ferðatakmörkunum verður að lokum aflétt. Þeir sögðust vonast til þess að ferðamennirnir myndu dvelja lengur á Íslandi og taka sér tíma í að skoða þá hluta landsins sem ekki njóta jafn mikilla vinsælda.