Meira er um að börn komi til sýnatöku nú en áður hefur verið. Þetta kemur fram í skýrslu sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér í dag.
Þar segir jafnframt að smitrakning gangi vel, þrátt fyrir mikið álag. Ekki sé enn komin skýr mynd á það hvort aðgerðirnar, sem tóku gildi 5. október, séu farnar að bíta, en það tekur tíma að sjá árangur. Aðgerðirnar gilda til og með 19. október, en sóttvarnarlæknir mun senda heilbrigðisráðherra tillögu hvað þær varða seinna í vikunni.
Upp kom smit í almannavarnadeild, eins og mbl.is greindi frá í dag, en þar greindist Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn smitaður af veirunni. Segir í skýrslunni að tveir starfsmenn deildarinnar hafi þurft að fara í sóttkví þess vegna. Smitið hafi þó hvorki áhrif á starfsemi deildarinnar né samhæfingarstöðvarinnar.