Í síðustu viku var unnið við viðgerðir á malbiki á hluta Elliðavatnsvegar á milli Kaldárselsvegar og Vífilsstaðavegar. Þar á milli hefur vegurinn liðast um holt og hraun í brekkum og bugðum í tæplega áttatíu ár, lagður í seinni heimsstyrjöldinni. Reyndar hefur vegurinn eða hlutar hans gegnt ýmsum nöfnum og nefna má heitin Setuliðsvegur, Flóttamannaleið, Flóttavegur, Flóttamannavegur, Vatnsendavegur og Ofanbyggðavegur. Talsverð umferð er um þennan veg, sem liggur um vinsælt útisvistarsvæði auk þess sem byggð hefur aukist á þessum slóðum og umferð er oft þung um Reykjanesbraut.
Friðþór Eydal, sem þekkir vel til sögu stríðsáranna hér á landi og mannvirkja þess tíma, segir að vegurinn hafi verið lagður á vegum bandaríska herliðsins 1942. Bretar og síðar Bandaríkjamenn hafi verið með miklar herbúðir í Mosfellssveit og við Geitháls. Þeir fyrrnefndu hafi látið leggja veg úr Mosfellssveit meðfram Hafravatni að Suðurlandsvegi. Bretar hafi haldið vegagerðinni áfram og lagt veg frá Rauðavatni og suður á Vatnsenda. Árið 1942 hafi Bandaríkjamenn látið leggja veg frá Vatnsenda að Kaldárselsvegi í Hafnarfirði.
Friðþór segir að í pappírum frá verkfræðideild bandaríska hersins sé vegurinn ýmist kallaður Back Road eða Tactical Road. Um þennan veg hafi herliðið austan Reykjavíkur átt að sækja fram ef til átaka kæmi í Hafnarfirði eða á Reykjanesi, fremur en um Hafnarfjarðarveg sem hefði verið hin eiginlega flóttaleið íbúanna og því ófær fyrir herliðið.
Friðþór segir að vegurinn hafi lengi verið kallaður Setuliðsvegur. Það heiti er meðal annars að finna í Þjóðviljanum í október 1957 þegar sagt er frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur fái til skógræktar hluta úr Vífilsstaðalandi. Sömuleiðis er það heiti að finna í ársriti Skógræktarfélags Íslands 1975.
Friðþór segir það rangt að um flóttaleið hafi verið að ræða og einnig sé það misskilningur að Bretar hafi lagt veginn, en hvort tveggja má finna í gögnum.
Í Örnefnalýsingu frá 1988 segir svo: „Um Urriðakotsháls liggur nú bílvegur, sem venjulega er kallaður Flóttavegur eða Flóttamannavegur. Hann liggur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegar og var lagður af Bretum á stríðsárunum. Hann var líklega hugsaður sem varavegur, ef Hafnarfjarðarvegur lokaðist vegna hernaðaraðgerða og hafa einhverjir hugsað sem svo, að hann væri ætlaður til að flýja eftir.“
Ómar Ragnarsson, fréttamaður og umhverfisverndarsinni, er meðal þeirra sem hafa fjallað um þennan vegarkafla og lagt til að sérstakt upplýsingaskilti verði sett upp um heitið Flóttamannaleið. Hann segir reyndar í bloggi að breska hernámsliðið hafi lagt veginn til að bæta samgöngur á svæðinu, búa til nokkurs konar hringleið og hringleiðir og leggja ekki allt á aðeins einn veg, Hafnarfjarðarveg.
Reyndar hafi nafnið síðar fengið aðra merkingu heldur en á stríðstímum „þegar ökumenn sem höfðu kannski fengið sér aðeins of mikið neðan í því, notuðu hana til að komast fram hjá eftirliti lögreglunnar eða undan henni á flótta“.