Tæp 60% vilja nýja stjórnarskrá

Veggur við Skúlagötu var þrifinn í gær: „Hvar er nýja …
Veggur við Skúlagötu var þrifinn í gær: „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ stóð skrifað. Ljósmynd/Aðsend

Um sex af hverjum tíu landsmönnum töldu mikilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili og fjölgaði þeim um átta prósentustig milli ára sem töldu málið mjög mikilvægt. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 10. - 23. september 2020.

Alls sögðu 17% telja það mjög lítilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá, 8% frekar lítilvægt, 17% bæði og, 19% frekar mikilvægt og 40% mjög mikilvægt.

Af þeim sem tóku afstöðu kváðust 59% telja nýja stjórnarskrá mikilvæga og 25% lítilvæga. Hlutfall þeirra sem töldu mikilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá hafði ekki mælst hærra síðan mælingar MMR á afstöðu til málefnisins hófust í september 2017.

Konur (67%) reyndust líklegri heldur en karlar (51%) til að segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta er töluverð breyting frá síðustu könnun MMR, frá í október 2019, þegar þessi sömu hlutföll reyndust 56% fyrir konur og 49% fyrir karla.

Sem fyrr þá reyndist hlutfall þeirra sem sögðu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga hæst í aldurshópnum 67 ára og eldri (50%) en töluverð breyting varð hvað aldurshópinn 18-29 ára varðaði, þar sem hlutfall þeirra sem töldu endurnýjun stjórnarskrárinnar mjög mikilvæga jókst úr 24% í 46%.

Könnunin var framkvæmd dagana 10. til 23. september 2020 og var heildarfjöldi svarenda 2.043 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka