Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og ábyrgðarmaður spálíkans um þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi, segir óvissu ríkja um framþróun þriðju bylgju.
Thor segir í samtali við mbl.is að hann eigi ekki von á öðru en nýtt spálíkan verði birt á fimmtudag. Thor segir að hingað til hafi spálíkönin náð yfir þriggja vikna tímabil, en vegna mikillar óvissu sem nú ríkir um framþróun faraldursins nái líkanið yfir viku til tíu daga.
„Þetta er á meðan við erum að átta okkur á því hvort við séum að ná tökum á þessu. Þetta sveiflast mikið, það er mikið af smitum og þetta er allt svolítið öðruvísi. Það var auðvitað mikið af smitum líka í fyrstu bylgju, en það voru komnar stífar reglur sem við vorum farin að fylgja svo um mánaðamótin mars og apríl var þetta komið á ákveðið skrið og hægt að spá lengra fram í tímann,“ segir Thor.
„Núna er maður ekki viss um að þetta haldi eins vel, þó að maður sé farinn að skynja það að fleiri séu farnir að taka þátt í þessu svo það er tilefni til að vera bjartsýnn.“
Thor segir að árangurinn af þeim aðgerðum sem tóku gildi 5. október ætti að birtast í fjölda smita á næstu dögum.
„Við ættum vonandi að fara sjá árangurinn af þessum aðgerðum hvað úr hverju, vonandi skýrist það jafnvel á næstu dögum. Það eru alltaf sveiflur í þessu svo það er ekki hægt að slá neinu föstu fyrr en eftir tvær vikur af aðgerðum, maður þarf að vera varkár og láta þetta jafnast aðeins út,“ segir Thor.
Hann segir hlutfall þeirra sem eru í sóttkví við greiningu hafa mikla þýðingu.
„Núna er hlutfall þeirra sem eru í sóttkví komið upp fyrir 50%, það var það ekki fyrir bara nokkrum dögum. Ef það helst er það merki um að veiran sé á leiðinni niður. Þetta sveiflaðist líka mikið í vor en var að jafnaði alltaf yfir 50%. Ef smitum fer að fækka og hlutfall þeirra sem eru í sóttkví helst yfir 50% er veiran farin að deyja út því það eru alltaf færri og færri sem hægt er að smita,“ segir Thor.
Hann segir fjölda innlagna á Landspítala vegna veirunnar virðast vera í samræmi við fjölda smitaðra.
„Svo munar líka um að Covid-göngudeildin var tilbúin núna þegar bylgjan hófst, hún var ekki tilbúin í vetur. Í því felst ákveðið forskot og deildin hefur eflaust komið í veg fyrir einhverjar innlagnir. Ef þú getur metið ástandið á sjúklingnum geturðu kannski stýrt því betur hverjir þurfa að leggjast inn og hverjir þurfa kannski aðeins að bíða. Við sjáum kannski ekki eins mikið af innlögnum miðað við líkanið sem við sáum í fyrstu bylgjunni, en innlagnir koma eftir á svo það er viðbúið að það verði áfram innlagnir í næstu viku,“ segir Thor.
Þá segir Thor fjölda tekinna sýna hafa mikla þýðingu.
„Við erum með mjög gott yfirlit yfir fjölda sýktra og erum mjög hátt skrifuð á fjölda prófa „per“ íbúa. Miðað við í fyrstu bylgju er prófunin miklu meiri núna. Það er talið að um 40% smitaðra í fyrstu bylgju hafi aldrei verið greindir, miðað við mótefnamælingar. Það hlýtur að vera að öll þessi sýnataka sé að saxa eitthvað inn í það hlutfall núna. Það kemur kannski í ljós síðar að við erum að ná fleirum einkennalitlum núna. Það leiðir kannski af því að hlutfallslega verði innlagnir færri,“ segir Thor.
Hann segir þó að á móti komi að veiran sé óútreiknanlegri og hegði sér á annan hátt en búist var við.
„Veiran er aðeins lúmskari núna, hún er alltaf að reyna að vera aðeins á undan okkur,“ segir Thor.
Greint var frá því í dag að fjöldi nýrri smita í hinum norrænu ríkjunum væri ekkert í líkingu við stöðuna á Íslandi. Ef eitthvað er þá eykst munurinn dag frá degi. Alls eru 257,4 smit á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu. Þetta er heldur hærri tala en nýgengi innanlandssmita á covid.is.
Thor segir faraldurinn virðast vera á uppleið í öðrum Evrópulöndum. Hann fari ekki á flug á sama tíma alls staðar.
„Það er athyglisvert að skoða eins og til dæmis Þýskaland þar sem er mikill vöxtur núna. Þeim hefur gengið mjög vel en ég myndi halda að það þyrfti að grípa til harðari aðgerða þar fljótlega. Svo eru teikn á lofti með Svíþjóð og í öllum löndum í rauninni, það munar aðeins dögum til og frá en þetta er á uppleið alls staðar.“