„Það er ljóst að tónleikarnir fara ekki fram í núverandi mynd, það verða engir áhorfendur í sal,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, um Jólagesti Björgvins sem verið hafa einn stærsti viðburður ársins um árabil.
Mikil óvissa er um það hvernig vertíð jólatónleika verður hér á landi þetta árið – og hvort af henni verður yfirhöfuð. Sena Live hefur að sögn Ísleifs brugðist við nýjum veruleika af völdum kórónuveirufaraldursins með því að leita nýrra lausna. „Við erum að skoða nýja lausn. Hugmyndin er að halda tónleikana í fullri stærð fyrir framan myndavélar og að hægt verði að sjá þá á öllum heimilum.“
Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix.is, segir að einhverjir tónlistarmenn hafi þegar hætt við jólatónleika í ár. Baggalútur, Bubbi, Friðrik Ómar og Geir Ólafs stefna þó enn að tónleikahaldi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.