Vigdís sakar þjóðleikhússtjóra um hroka gagnvart byggingarsögunni

Unnið að breytingum í Þjóðleikhúsinu í liðnum mánuði.
Unnið að breytingum í Þjóðleikhúsinu í liðnum mánuði. Kristinn Magnússon

Vigdís Hauksdótttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram harðorða bókun á fundi Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í morgun, þar sem hún gagnrýnir ákaflega nýlegar óleyfisframkvæmdir í Þjóðleikhúsinu, sem samþykktar hefðu verið eftir á.

„Til hvers erum við að hafa lög og reglur, Minjastofnun og önnur embætti, ef hið opinbera hirðir ekkert um neitt af því?“ spyr Vigdís í samtali við Morgunblaðið. „Einstaklingar og fyrirtæki þurfa að fara eftir þessum lögum og reglum eða sæta miklum viðurlögum ella, en svo gerir opinber stofnun eins og henni sýnist og þá er það bara samþykkt hljóðalaust eftir á.“

Vigdís var ómyrk í máli í færslu á Facebook um málið og segir það „skandal“ að stjórnendur Þjóðleikhússins hafi farið í óleyfisframkvæmd á svo viðkvæmri, byggingarsögulegri gersemi. Hún vísar þar til bókunar sinnar í borgarstjórn:

„Það er algjört reginhneyksli að búið er að gera breytingar á 1. hæð Þjóðleikhússins í óleyfisframkvæmd. Húsið er friðað frá árinu 2004. Þetta kallast nútíma hroki fyrir sögu og gildi hússins.“

Eftiráleyfi byggingarfulltrúa

Hún átelur ekki aðeins stjórnendur Þjóðleikhússins fyrir að hafa ráðist í ólöglegar óleyfisframkvæmdir og sækja svo um leyfi fyrir framkvæmdunum eftir á, heldur sendir hún byggingarfulltrúanum í Reykjavík einnig tóninn fyrir að hafa tekið málið á dagskrá afgreiðslufundar í liðinni viku og samþykkt þar áður gerða framkvæmd án byggingarleyfis og án þess að bera málið undir Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar.

Í fundargögnum þar komi fram að óvissa ríki um uppbyggingu og útfærslu framkvæmdar, en hvorki hafi verið skráð verktrygging á verkið né ábyrgðaraðilar. Hún hefur óskað eftir því að öll gögn málsins verði lögð fram á næsta fundi skipulagsráðs.

Ekki er langt síðan greint var frá þessum breytingum í fjölmiðlum, en lokahönd var lögð á þær í liðnum mánuði. Í viðtali Morgunblaðsins við Hálfdan Lárus Pedersen innanhússhönnuð og Þórð Orra Pétursson lýsingahönnuð, sem hönnuðu og höfðu umsjón með breytingunum á framhúsi Þjóðleikhússins, kom fram að Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri hefði haft ákveðnar hugmyndir um endurbætur á aðstöðunni, en þeir hafi haft að leiðarljósi vera með sem minnst inngrip í arkitektúr Guðjóns Samúelssonar og fremur að bæta við hvar sem þörf var á sem og að fjarlægja valdar síðari tíma viðbætur.“ Fram kom að allar breytingar hefðu verið gerðar í samráði við Minjastofnun Íslands og væru afturkræfar ef þörf væri á.

Minjastofnun kölluð til eftir á

Vigdís segir í samtali við Morgunblaðið að miðað við svör embættismanna í morgun sé hið síðastnefnda rangt. „Okkur var sagt að þessar breytingar hefðu allar verið um garð gengnar þegar Minjastofnun var loks kölluð til.“

Vigdís gagnrýnir einnig viðbárur embættismanna um að breytingarnar séu yfirstaðnar og því ekkert hægt að gera í málinu og bendir á að þegar einstaklingar séu staðnir að óleyfisframkvæmdum sé þeim gert að rífa þær niður.

Hún bendir jafnframt á að í öðru erindi sé sótt um leyfi til að breyta innra skipulagi á 1. hæð Þjóðleikhússins, m.a. því að komið sé fyrir handriðum við inngangströppur úti sem inni, innrétta fatahengi þar sem áður var miðasala og innrétta bari og setsvæði í hliðarsölum hússins. Vigdís segir ekkert hugað að því að vernda upprunalegt útlit hússins og gæta að höfundarrétti Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Hún segir að það sé ekki á forræði þeirra einna: „Núverandi stjórnendur Þjóðleikhússins eiga ekki húsið — heldur þjóðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka