Ljósastýrð vegamót í stað fullbúinna mislægra vegamóta

Sú lausn sem sátt er um að vinna áfram felst …
Sú lausn sem sátt er um að vinna áfram felst í hringtorgi við Vatnsendahvarf, einni brú yfir Breiðholtsbraut fyrir akreinar og stíga, og tengingu við Breiðholtsbraut með umferðarljósum. Núverandi ljósastýrð vegamót við Vatnsendaveg verða felld niður en þó verða þar leyfðar hægribeygjur. Mynd/Vegagerðin

Unnin hefur verið ný og breytt útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar sem er frábrugðin þeirri lausn sem kynnt var í mati á umhverfisáhrifum. Tillagan felur í sér ljósastýrð vegamót sem þó taka mið af landfræðilegum aðstæðum en fallið yrði frá hugmyndum um fullbúin mislæg vegamót.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Þar segir, að unnið verði áfram með sveitarfélögum að þessari lausn en þrýst sé á breytingar t.d. af viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu vegna neyðaraksturs. Stefnt er að útboði á næsta ári.

Fram kemur í tilkynningu Vegagerðarinnar, að Arnarnesvegur (411) flokkist sem stofnvegur í umsjá Vegagerðarinnar. Matsskýrsla vegna Arnarnesvegar á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar sé frá febrúar 2003 og úrskurður Skipulagsstofnunar um matið er frá því í júlí 2003.

Munur á tillögunni nú og þeirri sem samþykkt var í …
Munur á tillögunni nú og þeirri sem samþykkt var í matsferlinu er því að ekki er um fullbúin mislæg vegamót að ræða heldur ljósastýrð vegamót. Mynd úr matsskýrslu

Í úrskurðinum er fallist á lagningu fyrirhugaðs Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt valkosti Vegagerðarinnar eins og hann var kynntur í matsskýrslu. Fallist var á framlagðar útfærslur vegamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. 

Mikill þrýstingur á þessa framkvæmd

Fyrsti áfangi Arnarnesvegar var byggður á milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar, annar áfangi var opnaður árið 2016 og var frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Þriðji áfangi, sem nú er fyrirhugaður, er á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík og er um 1,3 km að lengd. Vegkaflinn er hluti af samkomulagi ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á á samgönguinnviðum, samgöngusáttmálanum, að því er Vegagerðin greinir frá. 

„Mikill þrýstingur er á þessa framkvæmd þar sem umferðartafir við núverandi vegamót Arnarnes­vegar og Vatnsendahvarfs eru miklar og umferðaröryggi ekki ákjósanlegt. Í mars 2019 ritaði stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins áskorun til samgönguráðherra þess efnis að hefja framkvæmdir sem fyrst og í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á lagfæringar á vegamótunum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert