Unnin hefur verið ný og breytt útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar sem er frábrugðin þeirri lausn sem kynnt var í mati á umhverfisáhrifum. Tillagan felur í sér ljósastýrð vegamót sem þó taka mið af landfræðilegum aðstæðum en fallið yrði frá hugmyndum um fullbúin mislæg vegamót.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Þar segir, að unnið verði áfram með sveitarfélögum að þessari lausn en þrýst sé á breytingar t.d. af viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu vegna neyðaraksturs. Stefnt er að útboði á næsta ári.
Fram kemur í tilkynningu Vegagerðarinnar, að Arnarnesvegur (411) flokkist sem stofnvegur í umsjá Vegagerðarinnar. Matsskýrsla vegna Arnarnesvegar á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar sé frá febrúar 2003 og úrskurður Skipulagsstofnunar um matið er frá því í júlí 2003.
Í úrskurðinum er fallist á lagningu fyrirhugaðs Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt valkosti Vegagerðarinnar eins og hann var kynntur í matsskýrslu. Fallist var á framlagðar útfærslur vegamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar.
Fyrsti áfangi Arnarnesvegar var byggður á milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar, annar áfangi var opnaður árið 2016 og var frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Þriðji áfangi, sem nú er fyrirhugaður, er á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík og er um 1,3 km að lengd. Vegkaflinn er hluti af samkomulagi ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á á samgönguinnviðum, samgöngusáttmálanum, að því er Vegagerðin greinir frá.
„Mikill þrýstingur er á þessa framkvæmd þar sem umferðartafir við núverandi vegamót Arnarnesvegar og Vatnsendahvarfs eru miklar og umferðaröryggi ekki ákjósanlegt. Í mars 2019 ritaði stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins áskorun til samgönguráðherra þess efnis að hefja framkvæmdir sem fyrst og í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á lagfæringar á vegamótunum,“ segir í tilkynningunni.