„Ég átti mjög auðvelt með að setja mig í spor hennar. Ég og systkini mín og fjölskylda urðum fyrir þessu, að missa foreldra okkar í bílslysi. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi haft áhrif á mitt líf,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, í Kastljósi kvöldsins.
Þar ræddi hann við Láru Ómarsdóttur um banaslys sem varð á Kjalarnesi í júnílok.
Heiðrún Finnsdóttir missti föður sinn og stjúpmóður í slysinu. Á vegarkaflanum sem slysið varð á var nýtt malbik sem var afar hált og stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar. Heiðrún segir Vegagerðina hafa vitað af hættunni sem þarna var.
Sigurður Ingi missti sjálfur foreldra sína í umferðarslysi og sagði hann því að hann skildi reiði Heiðrúnar vegna slyssins. Sigurður Ingi vottaði fjölskyldunni sem og öðrum fjölskyldum sem misst hafa ástvini sína í umferðarslysum samúð sína.
Sigurður Ingi sagði að andlát foreldra hans hafi haft áhrif á líf hans og pólitískan feril. Af þeim sökum hafi hann talað fyrir úrbótum á samgöngukerfi hérlendis.
Hann sagði að stjórnvöld hefðu staðið að ýmsum samgöngubótum á síðustu árum, sérstaklega frá árinu 2017, en hugarfarsbreytingu þyrfti til.
„Að við sættum okkur ekki við að missa fólk í umferðinni,” sagði Sigurður.