Ákærði í manndrápsmáli látinn laus úr varðhaldi

Aðalmeðferð málsins er fyrirhuguð í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember.
Aðalmeðferð málsins er fyrirhuguð í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á sextugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á föstudaginn var. Felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum, en hann hafði setið í varðhaldi frá því 2. apríl, eftir að krufning leiddi í ljós að andlát konunnar hefði líklega borið að með saknæmum hætti. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, við mbl.is.

Úrskurður Landsréttar hefur ekki enn verið birtur, en samkvæmt upplýsingum frá dómstólnum stendur til að birta hann síðar í dag.

Aðalmeðferð í málinu átti upphaflega að fara fram í ágúst. Hún tafðist meðal annars vegna þess að dómari málsins við Héraðsdóm Reykjaness, Jón Höskuldsson, var í september skipaður dómari við Landsrétt. Hefur Kristinn Halldórsson tekið við sem dómari málsins. Tímasetning aðalmeðferðar er ekki komin á hreint, en Kristinn staðfestir við mbl.is að stefnt sé að því að aðalmeðferð fari fram fyrri hluta nóvember.

Maðurinn neitaði sök við þingfestingu og féllst dómari þá á að þinghald í málinu yrði lokað. Farið var fram á lokað þing­hald á grund­velli a-liðar ákvæðis 10. grein­ar saka­mála­laga þar sem seg­ir að þing­hald geti farið fram fyr­ir lukt­um dyr­um til hlífðar sak­born­ingi, brotaþola, vanda­manni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Ákæru­valdið gerði ekki at­huga­semd um að þing­haldið yrði lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert