Karlmaður á sextugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á föstudaginn var. Felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum, en hann hafði setið í varðhaldi frá því 2. apríl, eftir að krufning leiddi í ljós að andlát konunnar hefði líklega borið að með saknæmum hætti. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, við mbl.is.
Úrskurður Landsréttar hefur ekki enn verið birtur, en samkvæmt upplýsingum frá dómstólnum stendur til að birta hann síðar í dag.
Aðalmeðferð í málinu átti upphaflega að fara fram í ágúst. Hún tafðist meðal annars vegna þess að dómari málsins við Héraðsdóm Reykjaness, Jón Höskuldsson, var í september skipaður dómari við Landsrétt. Hefur Kristinn Halldórsson tekið við sem dómari málsins. Tímasetning aðalmeðferðar er ekki komin á hreint, en Kristinn staðfestir við mbl.is að stefnt sé að því að aðalmeðferð fari fram fyrri hluta nóvember.
Maðurinn neitaði sök við þingfestingu og féllst dómari þá á að þinghald í málinu yrði lokað. Farið var fram á lokað þinghald á grundvelli a-liðar ákvæðis 10. greinar sakamálalaga þar sem segir að þinghald geti farið fram fyrir luktum dyrum til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Ákæruvaldið gerði ekki athugasemd um að þinghaldið yrði lokað.