Um 2,7 milljörðum króna verður varið árlega til varna gegn náttúruvá árin 2021-2025 samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrr í mánuðinum. Er það aukning um 1,6 milljarð króna á ári frá því sem nú er.
Þessu fé er ætlað að efla ofanflóðavarnir, vöktun og styrkingu stjórnsýslu vegna náttúruvár.
Mikið óveður gekk yfir landið í desember og fór rafmagn af víða á Norður- og Austurlandi, en bæði Dalvíkurlína og Fljótsdalslína 2 fóru í sundur. Þá er vert að nefna stór snjóflóð sem féllu á Flateyri og Suðureyri í janúar.
Í kjölfarið var skipaður starfshópur um úrbætur í innviðum, og annar um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri í kjölfar snjóflóðanna. Meðal tillagna var að flýta uppbyggingu ofanflóðavarna þannig að þeim yrði lokið fyrir 2030 en ekki 2050 eins og áður var áætlað. Skilgreind hafa verið 47 verkefni til varnar ofanflóðum og er 27 þeirra þegar lokið. Gert er ráð fyrir að 35 verði lokið árið 2025 og öllum árið 2030.
Einnig var lagt til efling almannavarnakerfis til að auka vöktun með náttúruvá. Í því felst meðal annars kaup á vöktunar- og mælibúnaði, hugbúnaði og endurnýjun og uppbyggingu veðursjárkerfis. Gera fjárlög næsta árs ráð fyrir 463 milljóna króna framlögum í þessi verkefni, til viðbótar við þær 540 milljónir sem eru á fjáraukalögum þessa árs.